143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

húsakostur Landspítalans.

394. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Síðastliðið haust lagði hv. þm. Björt Ólafsdóttir fram fyrirspurn til skriflegs svars til heilbrigðisráðherra um framkvæmdir við Landspítala við Hringbraut. Í svari hans frá 30. október 2013 kom fram að ráðgert sé að hefja framkvæmdir við nýbyggingar og endurbætur á húsakosti Landspítalans á þessu kjörtímabili og að unnið sé að endurskoðaðri framkvæmdaáætlun í samstarfi við stjórn nýs Landspítala ohf. og stjórnendur Landspítala. Nú er hálft ár liðið. Það er því tímabært að fá upplýsingar frá ráðherra um hver niðurstaða endurskoðunarinnar sé, enda mikið í húfi. Það vita allir að verkefnið er umfangsmikið, en það er einnig álit þeirra sem best til þekkja að endurnýjun á húsakosti Landspítalans sé forgangsverkefni í heilbrigðismálum á Íslandi. Málið þykir svo aðkallandi að stofnuð hafa verið landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala undir heitinu Spítalinn okkar.

Rökin fyrir endurnýjun húsnæðis eru augljós. Í fyrsta lagi er húsakostur sjúkrahússins gamall og úreltur og sjúkrahúsið er starfrækt á mörgum stöðum með því óhagræði sem því fylgir. Breytingar á tæknistigi heilbrigðisþjónustu kalla á breyttan húsakost. Í öðru lagi er þjóðin að eldast sem veldur því að hlutfallslega fleiri þurfa á flókinni heilbrigðisþjónustu að halda, t.d. vegna krabbameins og hjartasjúkdóma. Í þriðja lagi er erfitt að tryggja öryggi sjúklinga í núverandi húsnæði og skipulagi sjúkrahússins. Einbýli eru fátíð þrátt fyrir að inniliggjandi sjúklingar séu að meðaltali mun veikari en áður og á álagstímum skapast alvarlegt hættuástand því að erfitt er að tryggja sóttvarnir með einangrun sjúklings. Í fjórða lagi eru starfsaðstæður heilbrigðisstarfsmanna víða ömurlegar innan LSH og aðstæður til umönnunar, rannsókna og menntunar óviðunandi. Verkefnið er mjög kostnaðarsamt, kostar rúma 50 milljarða kr. Það er sameiginlegt verkefni okkar að tryggja það fjármagn og hefja framkvæmdir sem allra fyrst. Kostnaðurinn af því að hefjast ekki handa verður að lokum miklu meiri fyrir íslenskt samfélag.

Þess vegna vil ég, herra forseti, spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson:

Hver er niðurstaðan úr endurskoðun á áætlunum fyrir nýbyggingar og endurbætur á húsakosti?