144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:20]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð á þessu mikla frumvarpi. Mig langar að spyrja ráðherra nokkurra spurninga um atriði sem ég sé ekki stað í frumvarpinu. Mig langar að spyrja hvort ráðherrann hafi leitt hugann að því hvort setja þyrfti eitthvað inn í frumvarpið sem stuðlaði að lækkun byggingarkostnaðar og/eða til að auðvelda hagkvæma fjármögnun leigu- og búseturéttar fyrir ungt fólk og meðaltekjuhópa, sem kýs að vera hreyfanlegt á þessum húsnæðismarkaði. Þetta er fyrsta spurningin.

Ég spyr hæstv. ráðherra líka hvort hann telji að það þurfi að skoða það, og koma því inn í þetta frumvarp, að herða á skyldum og ábyrgð sveitarfélaga varðandi skipulagslega umgjörð leigu- og búsetumarkaðar sem ákveðið er að eigi að vera til framtíðar.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti hugsað sér að þær breytingar verði gerðar að einstaklingar geti stofnað húsnæðissamvinnufélög um byggingu og rekstur leiguíbúða og þeir megi vera færri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu og þá í meira eða minna samstarfi við ríki, sveitarfélög og/eða aðra velvildaraðila.

Þetta eru kannski þættir sem ekki er tekið á í frumvarpinu, en mig langar að spyrja ráðherrann hvort þetta hafi verið rætt og hvort ráðherrann hafi íhugað að taka slíkt inn.