144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:26]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Að hluta til snýr spurningin að ábendingu sem við höfum verið að fá varðandi það úrval af íbúðarhúsnæði sem sveitarfélög bjóða upp á. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum vel yfir það, tengt skipulagslögum, og ég held að sveitarfélög hafi ákveðið svigrúm til þess í dag að gera kröfu á sjálf sig um fjölbreytni þegar kemur að mismunandi íbúðarhúsnæði. Það getur líka snúið að því að gera kröfur um stærð, til dæmis á þeim íbúðum sem eru byggðar á ákveðnum lóðum sem verið er að úthluta. Það eru fordæmi þekkt um það, til dæmis frá New York og London, þar sem ekki er bara horft á það sem snýr að stærð heldur líka að tekjum fólks sem er að fara í íbúðirnar.

Þetta er okkar tillaga, að hafa þessa 15 félagsmenn sem lágmark, en það er mikilvægt að hlusta á það sem umsagnaraðilar segja og heyra líka frá sveitarfélögunum sjálfum, hvernig þau telja aðstæður vera. Það var byggt óvarlega víða hringinn í kringum landið í félagslega íbúðakerfinu. Sem betur fer erum við búin að ná utan um þann vanda að mestu leyti. En ég held að það sé líka mikilvægt að hafa í huga að allar þær ákvarðanir sem við erum að taka núna, sem snúa að húsnæðismálum, hafa áhrif til langrar framtíðar. Þannig að ég treysti því og ég veit að nefndin mun vinna þetta vel.