144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið sem varðaði fyrsta hluta andsvars míns, þ.e. hvar helstu álitamálin liggja. Ég þakka ráðherranum fyrir að varpa ljósi á það hversu afdrifarík ákvörðunin verður og niðurstaða þingsins því að það skiptir miklu máli að ákveðin samfella verði í því sem ráðuneytið leggur til og þingið vinnur síðan úr og leggur til að aflokinni úrvinnslu málsins.

Mig langar að endurtaka spurningu mína frá fyrra andsvari að því er varðar samráðsferlið og helstu athugasemdir sem komu fram. Skil ég hæstv. ráðherra rétt að þær hafi helst lotið að nákvæmlega þessum sama þætti eða að önnur atriði frumvarpsins hafi tekið breytingum í samræmi við þær athugasemdir og umsagnir sem fram komu á umsagnarferlinu?

Síðan varðandi það að hér er lögð áhersla á þá viðbót í framkvæmdinni að aukinn verði stuðningur og ráðgjöf í kjölfar nauðungarvistunar. Það kom skýrt fram í framsögu hæstv. ráðherra að það væri mikilvægt í framkvæmd laganna, verði frumvarpið samþykkt á Alþingi. Telur ráðherrann að það sé nóg að gert? Er hún sammála kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins um að 6 millj. kr. á ári, sem mér sýnist að gæti verið innan við eitt stöðugildi, nægi til þess að koma til móts við þennan þátt sem ég er sammála hæstv. ráðherra að hljóti að vera afar mikilvægur?