145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Undirstaða lýðræðisins er opin og frjáls umræða sem byggir á tjáningarfrelsi. Þetta eru réttindi sem eru varin í 73. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir líka að ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Nú hafa borist spurnir af því að verið sé að knýja á um nýjar siðareglur starfsmanna Ríkisútvarpsins og hnykkja þar á hlutleysiskröfu til frétta- og dagskrárgerðarmanna, sem er í sjálfu sér af hinu góða því að allir frétta- og dagskrárgerðarmenn vilja ástunda hlutleysisregluna, hún er viðurkennt viðmið í alþjóðasiðareglum blaðamanna. En það sem er verra er að í þeim drögum sem nú liggja fyrir er bannað að tjá skoðanir opinberlega og starfsmönnum skylt að tilkynna yfirmanni ef misbrestur er á þeirri starfsreglu. Það er með öðrum orðum verið að banna tjáningu skoðana og banna fólki að eiga líf utan vinnustaðar.

Þetta er mikið áhyggjuefni, virðulegi forseti. Það er eitt að heimta hlutleysi í vinnubrögðum, sem er sjálfsagt mál, en það er annað að taka mannréttindi af fólki. Það finnst mér að megi ekki líðast í lýðræðisríki og mannkynssagan sýnir okkur að það er ekki til góðra hluta fallið að bæla skoðanir og kúga þær.

Við skulum líka hugleiða í hvaða andrúmslofti þessar siðareglur verða til. Það er andrúmsloft áralangs fjársveltis og árása sem starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa orðið fyrir, m.a. af þingmönnum (Forseti hringir.) í þessum sal. Það er í því andrúmslofti sem starfsmenn finna sig knúna (Forseti hringir.) til að leggja fram tillögur (Forseti hringir.) sem skerða stjórnarskrárvarin mannréttindi. Af því er ástæða til að hafa áhyggjur, virðulegi forseti.


Efnisorð er vísa í ræðuna