145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er eitt þingmál sem við ættum að vera að ræða hér en það hefur ekki verið tekið fyrir af neinni alvöru á kjörtímabilinu. Það er ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands grundvölluð á frumvarpi stjórnlagaráðs.

Umræðan um hagsmunaskráningu og vanhæfi þingmanna og ráðherra er ekki ný. Hún átti sér ekki stað í fyrsta sinn í seinustu viku eða vikum. Hún átti sér stað á sínum tíma í kjölfar efnahagshrunsins þegar traust almennings til þessarar stofnunar og fleiri stofnana í samfélaginu brast mjög mikið. Sú umræða stöðvaðist ásamt umræðu um margt það góða sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs. Ástæðan fyrir því að fólk mótmælir hér fyrir utan og ástæðan fyrir því að fylgi stjórnarflokkanna hefur verið lítið þrátt fyrir efnahagslega velsæld er sú að fólk vill meira en bara efnahagslega velsæld. Það vill fá grundvallarbreytingar í því hvernig lýðveldið Ísland virkar sem lýðveldi. Sú umræða átti sér stað en hún stöðvaðist. Við eigum að taka hana upp aftur. Mér þykja atburðir seinustu vikna sýna það ásamt fleiri atburðum sem hafa átt sér stað frá því að þeirri umræðu var sleppt.

Í 50. gr. frumvarpsins sem var lagt fram á Alþingi kemur fram um hagsmunaskráningu og vanhæfi, með leyfi forseta:

„Alþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. Um hæfi þingmanna skal nánar mælt fyrir í lögum. Vanhæfi þingmanns hefur ekki áhrif á gildi settra laga.

Í lögum skal kveðið á um skyldu alþingismanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.“

Í 2. mgr. 86. gr. kemur fram, með leyfi forseta:

„Geti ráðherra ekki fjallað um mál eða sinnt starfi sínu að öðru leyti vegna vanhæfis eða annarra ástæðna felur forsætisráðherra öðrum ráðherra staðgöngu. Forsætisráðherra ákveður með reglum fyrirkomulag staðgöngu þurfi hann sjálfur að víkja sæti eða geti ekki gegnt störfum tímabundið.“

Virðulegi forseti. Við höfum enga afsökun fyrir því að vera að ræða þetta fyrst núna þegar svo er í pottinn búið. Við áttum aldrei að hætta að ræða þetta til að byrja með. (Forseti hringir.) (BirgJ: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna