149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég kom að málum vorum við enn þá á þeim stað þar sem við vorum þegar sótt var um aðild að Evrópusambandinu. Þá tóku menn að stórum hluta niður þessar varnarlínur sem voru. Þeir tóku fulltrúa fagráðuneytanna frá Brussel. Ég lagði til að við settum þá þangað aftur og það er nokkuð sem við erum að vinna að.

Ég held að sú umræða sem er tekin um þetta — við þurfum að taka hana á dýptina, taka hana þannig að allir séu meðvitaðir um hvað hér er á ferðinni. Því að ef við ætlum bara að kenna alþjóðasamningum um allt sem miður fer, þegar jafnvel oftar en ekki við höfum ekki unnið heimavinnuna sjálf, erum við að grafa undan fjöreggi okkar. Við erum að grafa undan því alþjóðasamstarfi sem hefur gert að verkum að við erum ein ríkasta þjóð heims.

Það er algerlega útilokað að ef við hefðum ekki aðgang að erlendum mörkuðum, eins og við höfum, að við værum jafn rík þjóð og við erum núna. Við værum enn þá á þeim stað, ef við hefðum ekki aðgang að erlendum mörkuðum og okkar markaðir væru ekki opnir, að við værum (Forseti hringir.) fátæk þjóð eins og við vorum fyrir um 100 árum síðan.