149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég vil aftur byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. Ég vil gleðja forseta líka með því að hann þarf ekkert að óttast að ég ræði EES-samninginn. Það verður örugglega gert bara síðar, þegar að honum kemur. En ráðherra gaf hins vegar upp boltann til að fara aðeins í smá spurningar um þennan ágæta samning, enda veit ég að ráðherrann hefur mjög gaman af því að ræða EES-samninginn, (Utanrrh.: Já.) hann er sérstakur áhugamaður til margra ára.

Hæstv. forseti. Þessi skýrsla er býsna viðamikil og vil ég byrja á því að þakka hinu öfluga og frábæra starfsfólki utanríkisráðuneytisins fyrir þessa samantekt og fyrir þessa miklu skýrslu sem hér liggur frammi. Enn og aftur sjáum við að starfsemin er mjög fjölbreytt þegar kemur að utanríkismálum, fjölbreytt og mikilvæg. Auðvitað er það þannig að áherslurnar eru mismiklar. Við getum að sjálfsögðu ekki verið góð í öllu. Það er það sem við vitum.

Hér er fjallað um alþjóðasamstarf. Hér er fjallað um lög og reglur, þjóðarétt, varnarmál, þróunarsamvinnu o.s.frv. og ætla ég að fara svona í rólegheitunum í gegnum skýrsluna.

Ég vil þó taka fram að það fer aðeins í taugarnar á mér þegar ráðherrar tala eins og hér er gert í innganginum: Ég gerði þetta og ég gerði hitt. Við vitum jú alveg að ráðherrann fer fyrir þessu batteríi en það eru nú embættismennirnir sem undirbúa þetta allt saman og þeim ber að þakka líka kærlega fyrir.

Ég held að það sé rétt sem kemur fram hér í fyrstu eða annarri línu inngangsins að utanríkisþjónustan þurfi að vera í stakk búin til að mæta áskorunum á hverjum tíma. Það er algerlega hárrétt. Því er mikilvægt að horfa fram á við og hafa metnað fyrir þjónustunni og starfsemi utanríkisráðuneytisins til lengri tíma. Því miður fannst mér skorta upp á þegar við fórum yfir fjármálaáætlunina að það væri nógu mikill metnaður varðandi framtíðina þar sem gert er ráð fyrir að fjárlög til utanríkismála lækki í fjármálaáætluninni. Það er ekki endalaust hægt að hreyfa til fjármuni innan veggja ráðuneytisins. Það er hægt í einhvern tíma, hægt að einhverju marki, en maður styrkir ekki og eflir til lengri tíma með því móti. Hér þarf að setja markið hærra og ég veit það eru fleiri tilbúnir til að bakka ráðherra upp í því að sækja fé til þessara verkefna.

Í innganginum er talað um ýmsa hluti sem ráðherra segist hafa gert — og efast ég ekki um að það sé allt saman rétt, með góðri hjálp síns frábæra starfsfólks. En hér er minnst á Japan og flugsamgöngur. Ég vil óska ráðherra og ráðuneytinu sérstaklega til hamingju með þetta, að hafa náð að opna glugga til Japans þegar kemur að flugsamgöngum. Auðvitað er þetta ekki loftferðasamningur, en þetta getur orðið fyrsta skrefið í að fá slíkan samning. Ég fagna því sérstaklega.

Hins vegar er svo talað um Kína. Það er líka ágætt að því sé öllu fylgt eftir. Allt tekur sinn tíma varðandi Kína og fríverslunarsamninginn, en það er ljóst að þarna er í rauninni bara um að ræða eðlilegt framhald af því sem var sett á laggirnar og ljóst þegar samningur var undirritaður, þ.e. að smám saman yrði að greiða fyrir og við að laga okkur að þeirra kröfum þegar kemur að heilbrigði og öðru slíku.

Það er líka mjög ánægjulegt að sjá á blaðsíðu níu í inngangi ráðherra að næsta sumar verði konur í meiri hluta þeirra sem gegna sendiherrastöðu í tvíhliða sendiráðum Íslands. Þetta er afar ánægjulegt að sjá. Þetta væri hugsanlega ekki hægt að gera nema vegna þess að á árunum 2013–2016 var farið í að fjölga konum í sendiherrastöðum umtalsvert mikið. Af heildarfjölda voru þær 26% 2013, en 31% 2016. Á sama tíma voru konur gerðar að yfirmönnum í ráðuneytinu til jafns við karlmenn. 2013 voru þær 17% af yfirmönnum ráðuneytisins en 50% árið 2016, eða vorið 2016, sem er mjög mikilvægt. Og áfram verður að halda. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að halda áfram að jafna hlut kynjanna og óska honum líka til hamingju með að vera búinn að fá jafnlaunavottunina. Þetta er mjög mikilvægt og ég hvet ráðherra til að halda áfram að jafna stöðu karla og kvenna innan þessarar merku stofnunar sem þetta ráðuneyti er.

Á árunum 2013–2014 voru fjórar konur skipaðar nýir sendiherrar. Mér til mikillar gleði held ég að þrjár af þeim séu núna að fara á eða komnar „á póst“, eins og sagt er, og ein reyndar líklega að ljúka veru sinni þar.

En eitt tókst því miður ekki sem lagt var af stað með seinni hluta árs 2015 og fyrri hluta árs 2016, það var að gera fyrstu konuna að ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu. Þegar ráðherraskiptin urðu um vorið 2016 var búið að ganga frá öllum pappírum. Það var búið að skrifa undir að kona yrði gerð að ráðuneytisstjóra, en sá ráðherra sem tók við ákvað hins vegar að geyma það og gera það ekki, sem er miður. Ég treysti núverandi ráðherra fyllilega til þess að skoða það vandlega næst þegar að því kemur að lyfta konum enn frekar upp og gera loksins konu að ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu.

Eitt enn varðandi konur og jafnréttismál: Ég vil nefna að það er eitt verkefni sem var í gangi á sínum tíma og væri áhugavert að spyrja ráðherra út í hvort sé það enn þá. Það var verkefni um að reyna að fjölga konum sem milligönguaðilum í samningum, þ.e. „mediators“. Þar er nokkuð sem við Íslendingar getum lagt mikið til málanna. Við höfum fjöldann allan af góðum konum sem geta gerst málamiðlarar milli ólíkra hópa. Þarna eigum við að horfa mjög sterklega fram á við. Ég veit að ráðherra mun örugglega reyna að koma því á framfæri.

Þessi tími líður mjög hratt þannig að nú þarf ég að herða eitthvað á mér.

Ég ætla ekkert að fara mjög mikið í norðurslóðasamstarfið. Við erum að taka á okkur mikil verkefni þar og veit ég að þar mun okkar ágæta fólk standa sig vel og leysa þau með sóma. Mig langar hins vegar spyrja út í eitt sem ég sakna, ég bara sá það ekki í þessari skýrslu. Það getur vel verið að ráðherra hafi tekið þá ákvörðun að hætta að velta því fyrir sér. En það var eytt töluverðu púðri í svokallaða leitar- og björgunarmiðstöð á norðurslóðum, þ.e. að reyna að fá hér setta á fót miðstöð sem að kæmu samstarfsaðilar Landhelgisgæslunnar, hvort sem það væru nú borgaralegir aðilar eða herir — það eru fleiri en herir sem fara með þessi leitar- og björgunarmál. Hugmyndin var að þetta yrði byggt upp hér á Íslandi. Gaman væri að vita hvernig því hefur reitt af eða hvort því hafi verið frestað eða það slegið af.

Þegar við fórum yfir fjármálaáætlunina gagnrýndi ég ráðherra eilítið fyrir að gera mikið úr verunni í mannréttindaráðinu. Ég geri samt ekkert lítið úr henni. Hún er vissulega stór áfangi. En í samhengi hlutanna finnst mér kannski ekki alveg rétt forgangsröðun að setja á sama tíma ekki það púður sem við vitum að þarf bæði í Strassborg og Vínarborg til þess að geta tekið þar enn betur á málum en við gerum í dag. Að taka þetta að okkur á sama tíma og slá okkur á brjóst.

Ég er alls ekki að segja að ráðherra hefði átt að sleppa því að fara í Mannréttindaráðið, en við verðum samt að standa undir stóru orðunum. Það gerum við ekki með því að taka að okkur eitthvert stórt og feitt og skemmtilegt og mikilvægt hlutverk en um leið tíma ekki að setja það sem þarf á þá staði sem við sinnum nú þegar.

Á blaðsíðu 31 er fjallað um þjóðaréttarmál. Þar langar mig að nefna tvennt og hvetja ráðherra til að vera mjög á varðbergi og lyfta þeim málum sérstaklega vel. Það eru að sjálfsögðu hafréttarmál og landgrunnsmálin. Þessi tvö mál eru gríðarlega mikilvæg. Auðvitað eru önnur mál hér nefnd í þessum kafla sem eru mjög mikilvæg, en þetta er hluti af því sem gerir okkur að frjálsu og fullvalda ríki — að okkar lögsaga, okkar hafréttur og landgrunn, sé viðurkennt, sé nógu stórt og öflugt, að við getum sagt: Þetta gerir okkur að því sem við erum í dag, þessari eyju hér í miðju Atlantshafi.

Ég ætla enn og aftur að hafa ákveðnar efasemdir um það sem kemur fram á blaðsíðu 35, um þessa deild heimasendiherra. Ég fæ það ekki til að ganga upp í mínum undarlega kolli að það sé auðveldara að sinna fjarlægum ríkjum úr enn þá meiri fjarlægð en ef þau væru undir t.d. Vínarborg. Þar voru ríki Mið-Evrópu m.a. undir því sendiráði þar sem eru ýmis tækifæri fyrir Íslendinga, í jarðhita og alls konar verkefnum. En þetta er nú allt, að mér skilst, komið núna heim. Vonandi gengur þetta bara. Vonandi verður það til bóta. En ég ætla að hafa áfram miklar efasemdir um það og hef grun um að þetta sé ekkert ódýrara þegar upp er staðið.

Síðan er hér Utanríkisþjónusta til framtíðar. Hér á blaðsíðu 41 er gerð grein fyrir þessari skýrslu sem var gerð, stefnu. Margt ágætt í henni. Mig langar að fagna þessari kjörræðisdeild sérstaklega. Ég held að þó svo að það hafi nú verið rætt margoft að kominn sé tími til að halda betur utan um kjörræðismenn okkar og virkja þá betur. Þetta er oft á tíðum gríðarlega öflugt fólk sem hefur áhuga á að vinna meira fyrir okkur.

Enn og aftur hef ég áhyggjur af fjármununum til framtíðar. Menn minntust á Íslandsstofu. Auðvitað er hún eitthvað sem var löngu komið í gang en ágætt að það tókst að koma henni á þann stað þar sem hún er í dag. Ég vonast samt sem áður til að það takist nú í rólegheitunum að ná betur utan um þá fjármuni sem ríkið setur í þessi mál. Ég held að það sé enn þá óþarfi að þetta sé úti um allar koppagrundir í hinum og þessum ráðuneytum, þessir peningar sem fara í einhvers konar markaðsmál eða vinnu til þess að laða að fjárfesta eða ferðamenn.

Eðlilega er stór og mikill kafli um Brexit. Ráðherra og starfsfólk hefur vissulega verið mjög duglegt að koma og uppfræða utanríkismálanefnd. Vil ég að sjálfsögðu þakka fyrir það. Þetta er vitanlega mjög stórt mál. Það er alveg ljóst að hraðinn á því eða hvernig það þróast — við erum ekki stýrimennirnir þar. Við höldum ekki um stýrið eða ráðum hvert þessi Brexit-skúta fer, hvort hún strandar eða sekkur eða hvort hún lætur yfirleitt úr höfn. En ég held að það sé mikilvægt að öllum boltum sé áfram haldið vel á lofti þar og ég held að það hafi tekist í sjálfu sér ágætlega til, þó að mörgu sé að sjálfsögðu ósvarað, að því er virðist.

Varðandi öryggis- og varnarmál vil ég fagna því að það aukast fjármunir til varnarmála. Það er mikilvægt að halda því áfram. Við þurfum að halda áfram því ágæta samstarfi sem við eigum við Norðurlöndin eða NORDEFCO og síðan að halda áfram þeim verkefnum sem við höfum tekið að okkur þegar kemur að því að sjá um rekstur varnarmannvirkja o.s.frv. hér á landi. Hefur okkur tekist það gríðarlega vel, bæði okkar góða starfsfólki í ráðuneytinu sem og að sjálfsögðu Landhelgisgæslunni.

Það eru athyglisverðar línur á blaðsíðu 67 þar sem rætt er um þróun í upplýsingatækni og gervigreind og það tengt mögulegri afvopnun og vígbúnaðartakmörkunum og hernaðarlegum tilgangi o.s.frv. Þarna þurfum við að fylgjast vel með því að þarna gæti verið að við gætum lagt eitthvert lóð á vogarskálarnar.

Atlantshafsbandalagið er hornsteinn í okkar varnarstarfi. Að sjálfsögðu þurfum við og eigum að halda þar áfram algjörlega af fullum krafti. Við eigum ekkert að draga í land þar.

Mig langar að nefna aftur Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE. Þar erum við að sinna okkar verkefnum alveg ágætlega, erum með öflugt fólk til að gera það. Við getum að sjálfsögðu gert enn þá betur, tekið þátt í enn þá meiri starfsemi þar, líkt og í Strassborg, en til þess eru ekki settir fjármunir eða forgangsraðað í þau verkefni.

Innan þessa varnarmála- og öryggiskafla er framtíðarsýn og markmið og tek ég undir þau, verð ég að segja.

Varðandi þróunarsamvinnuna erum við að fjalla um þróunarsamvinnuáætlun í utanríkismálanefnd og kemur hún til 2. umr., ef ég man rétt, núna á næstu dögum. Ágætis áætlun. Við höfum að sjálfsögðu öll spurningar uppi um hvernig háttað verði útreikningum þegar það skýrist hvað við megum telja til þróunarsamvinnu og hvað ekki. Það mun að sjálfsögðu skýrast, þá munum við væntanlega fjalla meira um þetta.

Eitt að lokum, frú forseti, varðandi rekstur utanríkisþjónustunnar. Enn og aftur vil ég í rauninni bara að segja — það er reyndar áhugaverður kafli um húsnæðismálin — að það er spurning hvort það sé ekki kominn tíma til að byggja hreinlega yfir Stjórnarráðið með almennilegum hætti og spara alla þessa leigupeninga eða hvað það er sem við erum að eyða í.

En mig langar að segja að lokum, frú forseti, að smáríki eins og Ísland þarf öfluga utanríkisþjónustu. Við þurfum utanríkisþjónustu sem er kannski stærri en stærð eyjarinnar gefur til kynna, vegna þess að, eins og ráðherra réttilega sagði: Við erum háð alþjóðlegum samningum. Við erum háð viðskiptum. Erum háð því að eiga samskipti við umheiminn og til þess þurfum við öflugt fólk — sem við höfum vissulega innan okkar ráðuneytis og í starfsemi utanríkisþjónustunnar — (Forseti hringir.) en við þurfum að bæta í.