149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Eins og hv. þingmaður vísaði til þá er það líka mín skoðun að ef það er skylda einhverrar þjóðar að taka upp málefni hafsins og hafa þau ávallt í fararbroddi þá er það okkar Íslendinga af augljósum ástæðum. Hv. þingmaður kom inn á loftslagsmálin sömuleiðis. Þar höfum við líka sögu að segja um grænar lausnir, sem betur fer, og það var ekki út af loftslagsmálum. Ég held að við finnum það hvergi í heimildum þegar við skoðum það af hverju við höfum farið í grænar lausnir að menn hafi verið að hugsa um loftslagsmál. Ég held að stærsta ástæðan hafi verið sú að við áttum bara lítinn gjaldeyri og vorum með mikla orku sem við gátum nýtt okkur. Auðvitað eru aðrar leiðir færir líka en þetta er þekking sem við getum miðlað og eigum að miðla og höfum gert en þó sérstaklega á norðurslóðum því það er kannski á fáum stöðum jafn mikilvægt. En eins og hv. þingmaður hefur oftsinnis bent á þá eigum við ekki að einblína á eina lausn, það eru fleiri leiðir færar. Nýta vindinn og annað sem við eigum auðvitað að gera líka.

Ég held að það vanti svo sem ekki viljann eða þessar áherslur í okkar utanríkisstefnu. Eitt er að hafa viljann, eitt er að skrifa áherslurnar niður á blað og svo er það spurningin: Hvernig ætlum við að reyna að skilja eitthvað eftir okkur í okkar starfi, sama hvort við erum í formennsku í einhverju alþjóðasamstarfi eða í svæðisbundnu samstarfi eða einungis þátttakendur?

Ég þarf ekki í sjálfu sér að bæta við það sem hv. þingmaður vísar til. Markmiðið er alltaf að ná alþjóðasamningum. Við vorum núna að ná samningum varðandi úthafsveiðarnar sem er mikilvægt en það er mikið eftir (Forseti hringir.) ef við ætlum að ná þeim árangri sem við erum sammála um að við viljum ná.