150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

orð þingmanns um annan þingmann.

[14:11]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill taka fram að hann er sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni um að heppilegt hefði verið að hann hefði látið hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vita að hann ætlaði að víkja máli sínu að fyrirspurnum hans. Það er að vísu greinarmunur á hvort þingmenn óska beinlínis eftir því að eiga orðastað við annan þingmann, vilja leggja spurningar fyrir annan þingmann og af sjálfu leiðir þá að þeir verða að láta þann hinn sama vita fyrir fram eða hvort þeir kunni að nafngreina hann í almennu samhengi.

Niðurstaða mín er sú sama og komið hefur fram í þessum orðaskiptum, að við þessar aðstæður hefði verið eðlilegra að hv. þm. Birgir Ármannsson, eins og hann hefur þegar játað, hefði látið hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vita.

Vegna þess sem hér var sagt um fyrirspurnir hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar og úr því að hann upplýsir um það sjálfur er rétt að forseti staðfesti að forseti neitaði að skrifa upp á fyrirspurnir frá hv. þingmanni þar sem einni fyrirspurn var beint að hverju ráðuneyti og beðið um svör við því hver væru lögbundin verkefni ráðuneytisins og allra undirstofnana þess og hvernig fjárveitingum væri háttað til þeirra verkefna og hvers verkefnis um sig. Þetta gerði forseti með vísan til 1. mgr. 57. gr. þingskapa en þar stendur um fyrirspurnir:

„Óski alþingismaður upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni, sbr. 1. mgr. 54. gr., eða einstakt atriði þess gerir hann það með fyrirspurn er afhent skal forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.“

Forseti taldi augljóslega álitamál hvort ekki væri komið út fyrir þau mörk þegar í einni og sömu fyrirspurninni átti að spyrja um öll lögbundin verkefni ráðuneytis og allra undirstofnana þess sem og fjármögnun þeirra verkefna og greindi hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni frá því en bauðst til að bera það undir fundinn hvort slíkar fyrirspurnir yrðu leyfðar. Til þess ráðs getur forseti gripið, samanber 2. mgr. þessarar nefndu 57. gr. Þar stendur:

„Forseti ákveður svo fljótt sem hann telur sér unnt hvort fyrirspurn skuli leyfð eða ekki.“ — Það er sem sagt ekki sjálfgefið að skrifað sé upp á allar fyrirspurnir. — „Ef vafi er getur forseti þó borið málið umræðulaust undir atkvæði á þingfundi. Skal það einnig gert ef fyrirspyrjandi óskar þess er forseti synjar fyrirspurn.“

Hér átti það ekki við. Forseti hafði ekki tekið endanlega afstöðu til fyrirspurnarinnar, bauðst til að bera það undir fundinn en vafinn í málinu var sá hvort svona viðamikil fyrirspurn væri ekki augljóslega komin út fyrir rammann sem tilgreindur er í 1. mgr. 57. gr. Ég held að það sé óhugsandi að halda því fram að þegar spurt er um öll lögbundin verkefni ráðuneytis, allra undirstofnana þess, fjármögnun allra þeirra verkefna og hvers um sig, sé slíku hægt að svara í stuttu máli, t.d. í tilviki stærstu ráðuneytanna. Forseti hefði verið alveg sáttur við að bera vafann undir þingið en þá kaus hv. þm. Björn Leví Gunnarsson að breyta útfærslu fyrirspurna sinna á þann veg að spyrja um hverja eina stofnun og hvert eitt ráðuneyti. Það telur forseti að rúmist innan rammans, það sé sæmilega afmarkað og mögulegt að svara í sæmilega stuttu máli. Það mun hins vegar leiða til þess að fyrirspurnir hv. þingmanns verða væntanlega allmjög margir tugir. Forseti gæti látið sér detta í hug 60–80 fyrirspurnir en þær verða hver um sig það afmarkaðar að forseti telur sér fært að skrifa upp á þær. Þess vegna hefur hann gert það og telur sig þar með standa með rétti þingmanns til að bera fram fyrirspurn.

Ég held að það hafi verið óhjákvæmilegt, þó að það tæki nokkrar sekúndur, að upplýsa um bakgrunn þessa máls úr því að hann var gerður opinber með þeim hætti sem fyrirspyrjandi gerði hér og á undan honum aðrir sem gerðu athugasemdir við fyrirspurnirnar. Þá liggur vonandi algjörlega ljós fyrir þingheimi bakgrunnur þeirra fyrirspurna sem nú dælast inn.