150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

rekstraraðilar sérhæfðra sjóða.

341. mál
[14:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1099 fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða en til þessa hefur engin heildstæð löggjöf gilt um starfsemi þeirra. Frumvarpið leiðir í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, svokallaða Alternative Investment Fund Managers Directive, og tekur til starfsemi allra annarra sjóða en verðbréfasjóða. Í greinargerð með frumvarpinu segir að aðalmarkmið tilskipunarinnar sé samræming regluverks milli aðildarríkja og að tryggja einsleitni á innri markaði EES. Lögfesting frumvarpsins hefur í för með sér að til verður nýr eftirlitsskyldur aðili á íslenskum fjármálamarkaði, þ.e. rekstraraðili sérhæfðra sjóða. Nú gilda lög nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu hafa áhrif á þá aðila sem reka annars konar sjóði en verðbréfasjóði. Frumvarpið hefur í för með sér ýmsar breytingar á lögum á sviði fjármálamarkaða og þá fyrst og fremst vegna breyttrar hugtakanotkunar. Um markmið og efni frumvarpsins er að öðru leyti rétt að vísa í greinargerð með því.

Það er rétt að taka fram, eins og kemur fram í nefndaráliti, að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands lýsti í umsögn sinni ánægju með að frumvarpið hefði verið lagt fram og kom með nokkrar ábendingar sem nefndin féllst á nær undantekningalaust.

Lánamál ríkisins leggja í umsögn sinni til breytingu á hugtakanotkun og fellst nefndin á það, eins og kemur skýrt fram í nefndaráliti.

Þá er í frumvarpinu lagt til að við útreikning fjárhæða í lögum sé miðað við opinbert kaupgengi evru. Meiri hlutinn telur hins vegar rétt að leggja til að orðið kaupgengi falli brott úr lögunum þegar það er notað í framangreindu samhengi, með vísan til þess að frá og með 1. apríl sl. birtir Seðlabankinn einungis opinbert miðgengi gjaldmiðla og leggst þá af birting kaup- og sölugengis.

Vert er að vekja athygli þingheims líka á umfjöllun nefndarinnar í nefndarálitinu er varðar athugasemdir frá FRAMÍS þar sem samtökin telja að auknar og umfangsmeiri skyldur á smærri rekstraraðila sérhæfðra sjóða séu umfram það sem áskilið er í tilskipuninni og vildu að létt yrði á þeim til samræmis við ákvæði hennar.

Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar er ekki tekið undir þau sjónarmið og m.a. bent á að tekið sé mið af gildandi löggjöf um fjárfestingarsjóði, litið til fjárfestaverndar sem skiptir auðvitað miklu og svo kerfisáhættu í ljósi sérstöðu íslenska fjármálamarkaðarins. Hinar auknu kröfur geri eftirlitsaðilum kleift að fylgjast með þróun kerfisins og áhættu þess. Þá kom fram fyrir nefndinni að þar sem um er að ræða innleiðingu á tilskipun er gert ráð fyrir að aðildarríki uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur um samræmingu reglna en hafi svigrúm til að ganga lengra en þar er lagt til. FRAMÍS gerir einnig athugasemd við að lagt sé til að smærri rekstraraðilum sjóða verði óheimilt að markaðssetja sjóði sína til almennra fjárfesta. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þrátt fyrir að rekstraraðilum sérhæfðra sjóða verði óheimilt að markaðssetja til almennings hér á landi er ekki sett bann við því að almenningur leiti að eigin frumkvæði til slíkra sjóða um fjárfestingar. Með frumvarpinu er m.a. lagt til að afnuminn verði einkaréttur verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða til viðtöku á fé frá almenningi með þeim hætti að heimila svokallaða öfuga tilboðsgjöf.

Að lokum, herra forseti, er rétt að benda á að meiri hlutinn telur nauðsynlegt að gera breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins þar sem tímasetning gildistöku samkvæmt ákvæðinu er liðin, eins og kemur fram í nefndarálitinu, og eftir samþykkt laga um lýsingu verðbréfa sem boðin eru út í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði kom í ljós að lagfæra þurfti tilvísun í 2. mgr. 12. gr. þar sem vísað er til 4. gr. í stað 6. gr. sömu laganna. Leggur meiri hlutinn fram viðeigandi breytingartillögu.

Aðrar breytingartillögur sem gerðar eru eru tæknilegs eðlis og til lagfæringar en hafa ekki efnisleg áhrif. Að þessu sögðu og með vísan til þess skriflega nefndarálits sem hér liggur fyrir leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Þorsteinn Víglundsson, hv. þingmaður og fyrrverandi félagi okkar hér, var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifaði undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir þingsins og með fyrirvara. Þeir sem skrifa undir álitið eru þá hv. þingmenn, sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Þorsteinn Víglundsson, með fyrirvara.