150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til að leiðrétta sumt í máli hv. þingmanns. Þegar hv. þingmaður talar um að aðrar samgöngur frestist er akkúrat hið gagnstæða í gangi. Með því að taka verkefnin út fyrir í aðra fjármögnun flýtast aðrar framkvæmdir sem ellegar væru aftar. Tökum sem dæmi Ölfusárbrú sem er áætlað að komi í kjölfarið á vegaframkvæmdum og átti að byrja held ég 2025 og vera tilbúin 2028. Þegar hún er tekin út fyrir sviga núna er sú fjármögnun laus á bilinu 2025–2028 fyrir önnur verkefni. Það er nokkuð augljóst af því að hún er tekin út fyrir. Ávinningurinn felst hins vegar í því að hún verði búin á sama tíma og vegurinn, 2023 eða 2024, með því að gera þetta. Í þeim verkefnum, allflestum verkefnum, hefur sjónarmið íbúa breyst, sveitarstjórnir jafnvel hvatt til þess að farin yrði þessi leið á nokkrum af þeim stöðum sem m.a. hafa verið valdir. Tökum veginn um Öxi sem væri augljóslega mjög aftarlega í röðinni í forgangsröðun allra verkefna á landinu. Hann getur farið af stað vegna eindreginna óska heimamanna um að hann verði lagður til að styrkja stöðu innan sveitarfélags og að menn séu tilbúnir að greiða gjald vegna þess að hann styttir leiðina um eina 60 kílómetra. Það er ávinningur fólginn í því fyrir notandann. Það er hin stóra breyting í þessu.

Varðandi það sem þingmaðurinn fór síðan yfir þá var hann að velta meira fyrir sér heildarálögum í kerfinu. Það hefur ekkert með þetta að gera. Þetta er Hvalfjarðargangamódelið og ef íbúar á Íslandi yrðu spurðir í dag hvort þeir hefðu viljað gera það sem þeir gerðu, greiða fyrir notin og hafa þennan samgöngumáta allan þennan tíma eða þá bíða eftir því að forgangsröðunin gerði það að verkum að menn hefðu verið tilbúnir að fara (Forseti hringir.) í þetta, hef ég þá trú að menn hefðu viljað fara í framkvæmdina. Sama gildir um aðrar framkvæmdir. Orkuskipti í samgöngum (Forseti hringir.) og breytingar á fjármögnun í kerfinu eru allt annað mál og fyrir utan þetta. Þetta er sérmál og mjög mikilvægt að gera greinarmun á.