150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að fá tækifæri til að leiðrétta hv. þingmann. Þetta módel sem hér er verið að tala um er Hvalfjarðargangamódelið. Það þýðir ekkert að vera að blanda Vaðlaheiðargöngum inn í þetta. Þetta er ekki sú fyrirmynd. Þetta er allt önnur fyrirmynd sem hér er verið að leggja til. Gjaldið verður augljóslega mismunandi eftir því hver framkvæmdin er og hver ávinningurinn er og ávinningurinn verður alltaf notandans af því að ellegar getur hann keyrt hina leiðina. Það er val um aðra leið. Hún verður bara dýrari að aka vegna þess að það tekur lengri tíma, hann eyðir meira bensíni vegna þess að hann kemst aðra öruggari leið, styttri og með minni tilkostnaði. Þannig að ávinningurinn er hans ef hann fer leiðina, alltaf. Það er tilgangurinn með svona leiðum. Engu að síður er eðlilegt að sá sem fjármagnar og tekur áhættu af verkefninu fái eðlilegan ábata af því en ábatinn skiptist á milli notandans og þess sem tekur áhættuna af því að byggja. Hugsunin er Hvalfjarðargangamódelið. Og hvernig gekk það, hv. þingmaður? Það gekk þannig að það stóð algjörlega upp á dag að verkefninu var skilað, eigninni til ríkisins, og gjaldtöku hætt. Nákvæmlega sama er hugsunin í þessum verkefnum, að koma þeim af stað sem hraðast til að búa til aukið umferðaröryggi, búa til ávinning fyrir þá sem fara þær leiðir. Ávinningurinn er þeirra. Þeir geta ellegar keyrt gömlu leiðina. Hún er bara dýrari fyrir viðkomandi. Í því felst munurinn.