150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni Ara Trausta fyrir andsvarið og ég er alveg sammála honum. En ég sé vandamál við Axarveginn — og ég skil mjög vel að þetta er nauðsynlegur vegur fyrir íbúa fyrir austan — hverjir eru það sem við reiknum með að muni nota þennan veg mest? Það eru ferðamenn. Hvað eru ferðamenn að gera? Eru þeir að stytta sér leið til Egilsstaða? Nei, þeir munu taka firðina. Ég segi fyrir mitt leyti að í flestum tilfellum, ef ég væri að fara, ég fer sjaldan þarna en ég fer þó, tæki ég firðina, mér finnst það skemmtileg leið, nema ég væri að flýta mér. Þess vegna er þetta spurning um hversu mikinn kostnað og þess vegna tók ég Axarveginn út úr og tel hann vera ríkisframkvæmd og ég myndi segja nauðsynleg ríkisframkvæmd sem fyrst, algerlega. Það að keyra Öxi er ekki gaman í því ástandi sem vegurinn er í og hefur verið. Þetta er malarvegur og meira að segja hættulegur að mörgu leyti. Ég er líka alveg sammála að þarna er alveg gjörólíkt að fara með það og Ölfusárbrú sem er allt annað og mun meiri umferð verður um og líka orðið löngu tímabært að taka umferðina út úr Selfosskaupstaðnum. Það er ekki ágreiningur um að þetta þurfi að vera og ekki ágreiningur um að þetta sé valkvætt heldur er ég bara að velta upp því af hverju þetta er inni í þessum pakka, eins og Axarvegurinn.