150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:28]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins varðandi Axarveginn aftur. Nú er t.d. verið að sameina þarna sveitarfélög þannig að ég held að ef við horfum bæði til heimamanna, íslenskra ferðamanna, erlendra ferðamanna, hvernig sem við veltum þessari kúlu, þá muni umferð um Axarveg stóraukast. Ég spái því. Þá getum við bara séð hvernig fer.

Aðeins varðandi þennan kostnað. Hæstv. ráðherra benti á meðaltal sem kostar að keyra bensín- eða olíubíl 1 kílómetra, það eru 100 kr. Rafbílar koma hér ekkert við sögu enn þá, þetta eru örfá prósent, eða tvinnbílar, við erum fyrst og fremst enn þá í þessu gamla. Hvað mætti þá svona Axarvegsgjald vera hátt, 2.000 kr? Við skulum bara segja að það verði það. Mönnum finnst það rosalegt en það kostar 6.700 kr. að fara hina leiðina vegna þess að það er raunkostnaður við bílinn.

Þegar kemur svo að því að spá í efnahag manna — menn borga jú bensín- og olíugjaldið á lítra og ef þeir keyra Axarveginn kostar það auðvitað mun minna í það veggjald, við getum kallað það veggjald þótt það sé skattur. Og ef þeir keyra lengri leiðina er þetta náttúrlega enn dýrara. Þannig að fyrir þann mann sem á annað borð keyrir bíl, hvort sem það er fátækur maður eða ríkur, svo ég setji þetta á oddinn, er sparnaður, ábatinn fyrir viðkomandi að aka Axarveginn í þessu tilviki meira en umtalsverður, hann er verulegur fyrir utan það sem ég benti annað á. Hvernig sem við veltum þessu upp er alltaf ábati fyrir alla nema kannski ef það vilji svo illa til að það gangi illa að borga upp þessa 4 milljarða sem þarna fara í veginn. Þess vegna verður auðvitað að vanda mjög vel til þess þegar verið er að fara út í þær framkvæmdir. Hverjir sem það verða, lífeyrissjóðir (Forseti hringir.) eða einhverjir aðrir, þá treysti ég að það fari vel.