150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:08]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir mjög málefnalega ræðu. Þetta með að tekjur ríkisins svona almennt, skatttekjur af umferð og öðru slíku, dugi til alvöruflýtingar í samgöngumálum, ég er ekki eins viss um, þó að þær gengju betur til málefnaflokksins, að það væri efni í allar þær flýtingar sem við þurfum virkilega. Ég hef einhvern tímann heyrt sagt að um 70–75% hafi farið í samgöngumálin af því sem ætti að koma þangað. Hitt fari að einhverju leyti í afleiddan kostnað af umferð, en ég skal ekki sverja fyrir það. Ég tel virkilega að við þurfum að fara þessa leið.

Ég held að það hafi ekki verið einhver tilviljun hvaða verkefni voru valin, það voru valdar samgöngubætur sem eru aðlaðandi. Það eru þessar brýr, annars vegar Ölfusá og hins vegar Hornafjarðarfljót og svo náttúrlega Hvalfjarðargöngin og svo aftur annað sem er minna aðlaðandi og af hverju? Jú, til þess einmitt að prófa það hvort þessi leið reynist fær vegna þess að þetta er, eins og hefur komið fram, ekki verkefnalisti handa okkur að vinna skilyrðislítið eða -laust heldur heimild.

Svo varðandi þennan Covid-pakka sem ég veit að ég hafði orð á hér, það var vegna þess að verið var að skensa hér í þetta frumvarp. Ég tengdi það afgreiðslu samgönguáætlunar, hún er Covid-pakki, vegna þess að það eru framkvæmdir, það er vinna fyrir fólk, það eru samgöngumál og annað slíkt sem skipta öllu máli í framhaldinu, ekki þetta frumvarp „i og for sig“ en það er hins vegar hluti af því að geta afgreitt samgönguáætlun, að þetta komist á dagskrá. Yfir því var ég að skammast,(Forseti hringir.) neikvæðum orðum þingmanns og ég ætla að koma aðeins inn á hina leiðina á eftir.