150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar til að ræða við hv. þingmann. Annars vegar er það þessi nýja fjármögnun eftir gjaldið á bensínið og dísilolíuna, hvernig við komumst úr því að fjármagna, eins og nú er, samgöngukerfið með gjöldum sem duga ekki fyrir þeim framkvæmdum sem lagðar eru til í samgönguáætlun. Gjöldin duga ekki fyrir hluta af þeim samgönguframkvæmdum sem lagðar eru til í samgönguáætlun eins og alltaf hefur verið. Sumir hafa að vísu tínt til virðisaukaskatt og ýmislegt svoleiðis líka sem er á almennari nótum og borið þá skatta saman við framkvæmdirnar. Það er kannski ekki alveg sanngjarnt en það er ákveðið sjónarmið, allt í lagi með það. En bensíngjaldstofninn er vonandi að hverfa. Frá mínum bæjardyrum séð er eina leiðin að nota kílómetramæli, bara eins og við erum með hitamæli, rafmagnsmæli o.s.frv. heima hjá okkur varðandi notkun á samgöngukerfinu, ef ég leyfi mér örstuttar vangaveltur um það.

Varðandi forgangsröðunina velti ég því fyrir mér hvort eitthvað af þessum framkvæmdum eða mögulega allar séu í raun settar niður fyrir svigrúmið í samgönguáætlun af því að þær henta einfaldlega vel í þetta fjármögnunarmódel. Eru þær mögulega, á forsendum umferðaröryggis o.s.frv., það mikilvægar að þær ættu að vera á þeim stað í samgönguáætlun að vera fjármagnaðar af því almannafé sem er safnað í samgönguáætlun? Eins og kom fram í umræðunni við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur(Forseti hringir.) varðandi Sundabrautina, eru framkvæmdirnar settar neðar af því að þær henta í þetta módel.