Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[18:00]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða innlegg. Rétt áður en ég kem inn á gervigreindina þá má kannski segja frá því, af því að við vorum að tala hér um mat á námsárangri og hvaða hæfni við þurfum að hafa sem einstaklingar inn í þennan breytingatíma sem við erum að ráðast í, að ég tók þátt í menntamálaráðherrafundi OECD fyrir einhverjum tveim, þrem mánuðum síðan en sá fundur hefur ekki farið fram í 15 ár. OECD sagði við okkur menntamálaráðherrana að við skyldum undirbúa okkur undir að við þyrftum líklega að funda miklu oftar á næstu 15 árum en við höfum gert á síðustu 15 árum vegna þess að breytingarnar væru svo gríðarlegar fram undan. Það væri kannski tvennt sem stæði upp úr sem við þyrftum að hafa í huga að einstaklingur framtíðarinnar þyrfti að hafa. Hann þarf í fyrsta lagi að hafa þannig félagslega eiginleika að hann geti talað við annað fólk og liðið vel í sínum líkama og sinni sál og haft ákveðna tilfinningaþekkingu og svona, eitthvað sem er svolítið mikil umræða um í íslensku samfélagi, og hins vegar að vera tilbúinn til þess að breyta algjörlega um starfsvettvang á fimm til sjö ára fresti. Heimurinn bara gjörbreytist á fimm til sjö fresti. Það er kannski ágætt fyrir okkur sem erum búin að vera dálítinn tíma á Alþingi að hugsa það að við erum kannski komin aðeins fram yfir síðasta söludag. En þetta tvennt verður grundvallaratriði inn í 21. öldina.

Af því að hv. þingmaður nefnir tæknina og gervigreindina þá þarf hún sannarlega að fá veigamikinn sess þarna. Mér finnst þetta bara mjög góður punktur og ábending sem hv. þingmaður er með og hvet til þess að nefndin skoði það. Hugsunin á bak við þessa löggjöf er sú að hún sé fremur opin og sé bara að tala um stóru línurnar og verkefnin sem þessi stofnun hafi. En hún er með námsgagnaútgáfuna og hún á að vera þróunaraðilinn. Þannig að mér finnst þetta alveg góður punktur og hvet hv. þingmann eða hans fulltrúa í nefndinni — og ég tek það jafnframt upp innan ráðuneytisins hvort hægt sé að skerpa á þessu með tæknina og þær breytingar sem eru að verða, vegna þess að ef þessi stofnun verður ekki á tánum þar og það er ekki teiknað þannig upp í upphafi þá mun hún aldrei ná þeirri fótfestu og þeim styrk sem hún þarf til að fleyta börnunum okkar út úr skólakerfinu sem öflugri einstaklingum.