Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[18:04]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að halda tímamörk nú. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Ég held að það sem hann nefnir hér enn og aftur sé gríðarlega mikilvægt inn í þann breytingatíma sem menntakerfið þarf að ráðast í. Gagnrýnin hugsun verður gríðarlega mikilvæg í því samhengi. Ég hvet hv. þingmann og hef hvatt til að allir þeir sem hafi þekkingu á þessum geira — og ég hef sagt þetta m.a. við atvinnulífið, af því að þau eru kannski stundum svolítið nær þessu: Komið þið með þessar athugasemdir inn í vinnuna vegna þess að með þessari stofnun og svo skólaþjónustulöggjöfinni sem kemur í framhaldinu erum við að leggja grunninn undir það hvernig við þurfum að búa börnin okkar undir 2050, 2060 í heimi sem við vitum ekkert hvernig lítur út, af því að hann breytist hraðar milli daga nú heldur en hann gerði þegar ég var á þessum aldri.