Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[18:41]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Mig langar líkt og aðrir þingmenn hér að þakka fyrir að fá að ræða hér um menntamál, fræðslumál. Þetta er afar mikilvægur málaflokkur og jafnvel bara einn af stærstu málaflokkunum okkar hér í þinginu og sveitarstjórnum landsins. Þarna erum við að byggja undir framtíð barnanna okkar og má segja að þetta sé bara eitt helsta jöfnunartæki sem við höfum fyrir börnin. Við stofnun nýs mennta- og barnamálaráðuneytis var boðuð ný stefna í málefnum barna og er leiðarljós þeirrar stefnu að stjórnvöld séu að styðja við alla þá þætti sem gera barn farsælt. Þar gegnir menntunin sannarlega lykilhlutverki. Skólar landsins og sveitarfélög eru auðvitað misstór og misjafnlega í stakk búin til að mæta þörfum barna og því mikilvægt að til staðar sé miðlæg stofnun sem hægt er að leita til.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir ræddi aðeins um líðanina hér áðan. Nú þekki ég ekki þessar nýjustu tölur sem hún var að vitna til varðandi það að líðan barna sé því miður að fara niður á við skólunum en það tel ég vera mikið áhyggjuefni vegna þess að þegar börnunum okkar líður vel þá sjáum við að þau sýna framfarir. Það er auðvitað velferð og farsæld þeirra sem við þurfum að hafa í huga af því að stórum hluta dagsins verja þau einmitt innan þessara stofnana og afar mikilvægt að þeim líði vel. Ég fagna samt sem áður því að þetta frumvarp sé fram komið. Þetta var einmitt unnið í ráðuneytinu en einnig í samvinnu við okkur sem sitjum í þingmannanefnd um farsæld barna. Síðustu ár hefur verið aukin áhersla á að aðskilja eftirlitshlutverk og þjónustuhlutverk stofnunarinnar eins og hún er í dag. Hún er einmitt að sinna báðum þessum hlutverkum. Það má alveg velta því fyrir sér hvort það sé að koma niður á þjónustuhlutverkinu því að jú, það er kannski ekki alveg eðlilegt að eftirlit og þjónusta sé innan sömu stofnunarinnar.

Það er einmitt verið að leggja til að þessi stofnun fái sérstakt hlutverk við að styðja og efla skólastarf og hér er verið að benda á að þörf sé á kennslu- og sérfræðiráðgjöf fyrir skóla og starfsfólk í þágu nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Það samræmist einmitt menntastefnu til 2030. Við sjáum að samfélag okkar er að breytast ört og við erum með fjölbreyttari flóru innan samfélagsins. Það er afar mikilvægt að við séum að takast á við það verkefni en einnig þarf stuðning og leiðbeiningar til skóla vegna innra mats og framkvæmdar umbótaáætlana vegna ytra mats. Með þessu er verið að færa ytra matið til ráðuneytisins sem er mjög mikilvægt. Eins og staðan er í dag er verið að gera ytra mat í hverjum og einum grunnskóla á u.þ.b. sjö ára fresti. Liður í þessu er einmitt að Menntamálastofnun sé þá í rauninni að styðja við umbætur og aðgerðir til þess að bæta gæðin og þær niðurstöður sem koma út úr ytra matinu og ég tel að það sé afar mikilvægt. Þegar verið er að færa þetta yfir til ráðuneytisins má velta fyrir sér hvort það sé ekki líka jafnvel tækifæri til að endurskoða þættina sem eru í ytra matinu. Ég kannski beini því til hæstv. ráðherra hvort hann gæti jafnvel komið aðeins inn á það hér á eftir.

Auðvitað er þetta frumvarp sem hæstv. ráðherra var að mæla fyrir í dag fyrst og fremst til að bæta þjónustu við börnin okkar en Mennta- og skólaþjónustustofu er einmitt ætlað að starfa í þágu barna og ungmenna á sviði fræðslu og menntamála um land allt í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda. Henni er líka ætlað að vera leiðandi þegar kemur að skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi um land allt.

Hér hefur aðeins verið rætt um námsgögn og hvort þau ættu að koma inn í þetta frumvarp. Auðvitað er það ekki verkefnið með þessu frumvarpi en mig langar samt sem áður að velta því upp því að þetta var rætt mikið í þingmannanefndinni okkar. Það kom fram hjá starfsmönnum ráðuneytisins að þetta ætti að endurskoða. Mig langar bara til að velta því hér upp og leggja til, og væri kannski ágætt að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því, hvort ekki væri hægt að leggja til bráðabirgðaákvæði um að menntamálaráðherra eða ráðuneytinu yrði falið að leggja fram innan tveggja ára ný heildarlög um útgáfu námsgagna, líkt og við erum að gera með skólaþjónustulögum, þegar við erum að kveða nánar á um hlutverk stofnunarinnar. Það væri gaman að heyra hvað hæstv. ráðherra finnst um það. Við erum auðvitað að ræða um stóru myndina hér, um hlutverk stofnunarinnar. Síðan auðvitað eiga eftir að koma fram ný heildarlög um skólaþjónustu þar sem hlutverkum og verkefnum verða gerð betri skil. Það er einmitt samráðið núna sem mér skilst að standi yfir.

Mig langar til að nýta tækifærið og hrósa hæstv. ráðherra og starfsfólki ráðuneytisins fyrir afar góð og vönduð vinnubrögð því að það er leitun að því að við sjáum jafn mikið samráð og þau hafa haft varðandi þau mál sem komu frá ráðuneytinu. Það er verið að sækjast í að kalla til hópa, það er verið að halda ráðstefnur og fundi til þess að fá skoðanir fólksins sem er á gólfinu, fá skoðanir sérfræðinganna á því sem við erum að leggja til. Einmitt með því að fá þessar ábendingar þá erum við að stíga rétt skref í átt að því að efla menntakerfið okkar enn frekar.

Ég er alveg sannfærð um að nái þetta frumvarp fram að ganga muni það hafa almenn jákvæð áhrif fyrir skóla og starfsfólk skóla, svo að ég tali nú ekki um börnin okkar og ungmennin og foreldrana. Betri stuðningur við börn og ungmenni í skólakerfinu þvert á skólastig um land allt getur ekki annað en skilað okkur góðum árangri.