154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[19:27]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður man það með mér að þegar efnt var til ríkisstjórnarsamstarfsins árið 2017 var eitt af því sem lagt var upp með að efla Alþingi. Það var gert. Aukið fjármagn var sett inn, m.a. til að aðstoða þingflokka sem ég held að hafi tekist vel. Ég held að það hafi verið góð ráðstöfun að setja fjármagn í það að aðstoða þingmenn inni í þingflokkunum og skilað okkur árangri í því að efla lýðræðislega umræðu hér inni, vegna þess að styrkur þingflokkanna er augljóslega mismikill. Að öðru leyti vil ég líka nefna fjölmörg mál fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, sem lagði fram undir sínu fyrsta forsæti fjölmörg mál sem snúa að bættu lýðræði og bættum vinnubrögðum í íslenskri stjórnsýslu.