132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Rannsóknamiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

223. mál
[17:49]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér örstutt til að lýsa yfir ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu. Muni ég rétt var hún líka flutt á síðasta þingi. En fékk þá eigi framgöngu og mun því, að því ég best veit, lögð hér fram í að minnsta kosti annað sinn. Ég vona að það gangi betur núna en undanfarin ár og hún fái að fara í gegn. Ég hygg að þetta sé mjög góð hugmynd og ég styð hana.

Það er alveg rétt sem hefur komið fram í ræðum þeirra ræðumanna tveggja sem hafa talað hér á undan mér í þessu máli, að það eru margar þjóðir sem eiga við vandamál að stríða vegna landeyðingar. Við Íslendingar höfum náð ótrúlegum árangri í að berjast gegn gróðureyðingu. Ég man til að mynda vel eftir því að ég fór á fund hjá Öræfingum á síðastliðnu sumri, í Öræfasveit. Landgræðslufélag Öræfinga, gott ef það hét ekki það. Þar var okkur m.a. sýnt eða við skoðuðum svæði sem hafa verið grædd upp og ég verð að segja að þetta var alveg ótrúlegt. Maður verður eiginlega að sjá það til að trúa því hvað er hægt að gera. Þarna var búið að græða upp mjög hrjóstrugt land á tiltölulega skömmum tíma miðað við þær aðstæður sem þarna eru. Þarna voru hlíðar sem áður voru ekkert nema grjót og melar farnar að gróa upp og horfði mjög vel með framhaldið.

Þarna sannfærðist maður kannski endanlega um að það er hægt að gera ótrúlegustu hluti hér á Íslandi ef rétt er að málum staðið. Ég sannfærðist líka um að við Íslendingar höfum yfir að búa mikilli þekkingu og reynslu í þessum efnum. Ég er alveg sannfærður um að við getum miðlað af þeirri þekkingu til annarra þjóða. Þarna ætti í raun og veru að vera komið sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga. Nú á tímum er oft talað um útrás og alþjóðavæðingu. Þarna væri kannski um að ræða útrás sem við höfum ekki reynt svo mikið fram til þessa. Útrás sem gengur út á að selja séríslenska þekkingu á erlendum vettvangi. Ég hygg að það mætti að minnsta kosti athuga hvort ekki væri þörf fyrir ráðgjöf frá okkar hendi, okkar Íslendinga í þessum málefnum úti í hinum stóra heimi. Þetta gæti hugsanlega skapað einhver störf og tækifæri fyrir Íslendinga sem hafa skapað sér, eða áunnið sér sérþekkingu í þessum málum.

Ég hygg að í þeim löndum eða þeim heimshlutum sem hv. flutningsmaður Ísólfur Gylfi Pálmason nefndi hér áðan séu einmitt vandamál sem þurfi að leysa hvort sem það er gert á vegum erlendra hjálparstofnana eða annarra. En ég hygg svo sannarlega að við Íslendingar gætum lagt þarna hönd á plóginn með reynslu okkar og þekkingu í þessum málum.

Þetta er það sem ég vildi segja, virðulegi forseti, og jafnframt lýsa yfir að við í þingflokki Frjálslynda flokksins munum að sjálfsögðu styðja þetta mál. Ég veit ekki hvort þetta mál fer til landbúnaðarnefndar. Ég er þar áheyrnarfulltrúi. En mér þætti það ekki ótrúlegt að það kæmi að minnsta kosti til umsagnar þar og þá skal ég ekki láta mitt eftir liggja við að veita þessu mjög svo ágæta máli það brautargengi sem það á skilið.