135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

frumvarp um losun gróðurhúsalofttegunda.

[13:35]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spyr um úthlutanir losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda. Staða þess máls er þannig að verið er að fara yfir forsendur úthlutunar. Starfandi er úthlutunarnefnd. Formaður hennar er úr iðnaðarráðuneytinu og síðan eru þar fulltrúar fjármálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Þessi ágæta nefnd er sem sagt að fara yfir forsendur úthlutunar. Eins og menn vita eru lögin þannig að úthlutun ber að endurskoða á hverju ári og auðvitað er hægt að senda inn umsóknir um losunarheimildir á hverju ári. Þegar úthlutað var síðasta haust var um 85% þeirra losunarheimilda sem til eru á Kyoto-tímabilinu úthlutað þannig að ekki er mjög mikið eftir. En það þarf að skoða það mjög vel hvort, hvernig og hvenær þeim er úthlutað.

Hvað forsendurnar varðar vil ég, og hef beðið um það, að farið sé mjög vandlega yfir bæði öryggismál, losunarspár og allar tölur í loftslagsbókhaldinu áður en næst verður úthlutað. Einnig liggur fyrir að við þurfum að innleiða viðskiptakerfi Evrópusambandsins á losunarmarkaði, við verðum hluti af markaði með losunarheimildir í framtíðinni, og ég hygg að það sé það skref sem mestu máli skiptir þegar upp er staðið.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um byggðasjónarmiðin þá er mér fullkunnugt um skoðun hæstv. iðnaðarráðherra á því máli en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki, a.m.k. ekki enn þá, komið mér upp fullri sannfæringu fyrir þeim.