135. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2008.

málefni Landspítala.

[15:18]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er um grafalvarlegt mál að ræða og ástæða að óska hæstv. heilbrigðisráðherra og deiluaðilum góðs gengis í því að leysa úr þeirri erfiðu deilu sem nú er uppi í flaggskipi íslenskrar heilbrigðisþjónustu sem Landspítalinn er. Við höfum öll fylgst með atburðarásinni á síðustu dögum og fylgst með fréttaflutningi af því hvernig deilan hefur svo augsýnilega stefnt í harðari hnút.

Þann 18. apríl sl. sagði Erla Björk Birgisdóttir skurðhjúkrunarfræðingur að stjórnunin á spítalanum líktist rússneskum stjórnunarháttum. Þann 19. apríl sagði Vigdís Árnadóttir skurðhjúkrunarfræðingur að verið væri að berja hjúkrunarfræðinga til hlýðni — þetta er fyrir mörgum dögum — sem lýsti náttúrlega ákveðnum viðhorfum hjá hjúkrunarfræðingum til æðstu stjórnenda spítalans. Það er alveg ljóst að stjórnendur spítalans ætluðu að keyra málið í gegn því að þann 26. apríl, sl. laugardag, er haft eftir Önnu Stefánsdóttur, settum forstjóra, orðrétt, með leyfi forseta:

„Við munum ekki hætta við vaktabreytingarnar.“

Tveimur dögum síðar kom útspil stjórnendanna fram, að ákveðið væri að fresta þessum aðgerðum. En þá er kominn mjög mikill hiti í deiluna og bregðast stjórnendur spítalans allt of seint við miklum yfirlýsingum hjúkrunarfræðinga. Allt of seint er gripið til aðgerða og viðræðna í öllu þessu ferli og því er deilan komin í mjög harðan hnút, það ætti okkur öllum að vera ljóst.

Ég tek undir með þeim sem segja: Við skulum vanda orðaval í þessari umræðu. Um mjög viðkvæmt mál er að ræða, en ég tel einsýnt, eftir að hafa farið yfir málflutning hjúkrunarfræðinga og fréttaflutning af þessari alvarlegu deilu, (Forseti hringir.) að menn hefðu þurft að grípa miklu fyrr inn í og þá væri hugsanlega hægt að koma með einhverja lausn í dag á viðkvæmri stöðu. Staðan, hæstv. forseti, er grafalvarleg.