136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[20:31]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum eitt af þeim mikilvægu málum sem ég tel að komi heimilum landsins til góða. Ekki veitir af, því að þær hamfarir og hremmingar sem dunið hafa yfir íslenskt samfélag síðustu mánuði kalla á aðgerðir í þessum dúr og slíka hugsun, að koma til móts við heimilin í landinu. Um leið og ég tek umræðunni um séreignarsparnað og ráðstöfun hans fagnandi er nauðsynlegt að ræða samhengið í málinu og útfærsluna sem frumvarpið sem nú er til umræðu gerir ráð fyrir. Útfærsluna þarf að ræða í samhengi við stöðuna í samfélaginu og út frá því hvernig best megi útfæra þessa hugmynd þannig að hún skili tilætluðum árangri.

En fyrst að markmiði frumvarpsins. Það er ekki skýrt kveðið á um markmiðið þótt í því felist að sjálfsögðu að vinna í þágu heimilanna í landinu, enda kemur fram í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem birt var 1. febrúar 2009 í sjö liðum í 4. lið að sérstaklega verði farið í aðgerðir í þágu heimilanna. Þar kemur fram að markvissar aðgerðir verði viðhafðar til að bregðast við fjárhagsvanda heimila í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila, að sett verði á stofn velferðarvakt í samvinnu við hagsmunaaðila og að ætlunin sé að fá tillögur um aðgerðir frá þessum hópi. Enn fremur kemur fram að sett verði lög um séreignarsparnað sem veita sjóðfélögum tímabundna heimild til fjármagnsgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda. Ég ætla að endurtaka þetta: Það átti sem sagt að mæta brýnum fjárhagsvanda. Það má segja að þetta sé einmitt tilgangur frumvarpsins.

Í frumvarpinu sem er hér til umræðu er gert ráð fyrir að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verði heimilt frá 1. mars 2009 til 1. október 2010 að greiða út séreignarsparnað. Gert er ráð fyrir að hver einstaklingur sem á séreignarsparnað geti tekið allt að 1 milljón kr. með jöfnum mánaðargreiðslum á níu mánaða tímabili frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Af upphæðinni skal halda eftir staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, í dag er staðgreiðslan 37,2%. Því má gera ráð fyrir að um 630.000 kr. séu til greiðslu fyrir hvern þann sem á a.m.k. milljón í séreignarsparnaði og sækir um að fá hann greiddan á tímabilinu.

Allt frá því í byrjun október hef ég ásamt öðrum þingmönnum fengið margar fyrirspurnir frá einstaklingum sem voru og eru í brýnum vanda, einstaklingum sem hafa haft hug á því að nýta þessa séreignarsparnaðarleið eins og hafði verið talað um hjá hæstv. fyrrverandi ríkisstjórn sem og núverandi ríkisstjórn að væri mögulega hægt að nýta í þágu þeirra sem hefðu brýnustu vandamálin.

Eins og kemur fram ákvað hæstv. núverandi ríkisstjórn greinilega að fara strax í að útfæra þetta mál og hér er frumvarpið til umræðu, eins og áður sagði, um séreignarsparnaðinn — á fjármálahliðinni í dæminu. Ljóst er að um 120.000 einstaklingar í landinu eru rétthafar í séreignarsparnaði, þ.e. ef hver þeirra á a.m.k. milljón er um að ræða 120 milljarða sem þurfa þá að geta losnað nýti allir sér þessa leið. Ef um er að ræða að ekki eigi allir milljón á slíkum séreignarsparnaði má gera ráð fyrir að þessi upphæð geti verið nær 100 milljörðum sem er engu að síður stór hluti af þeirri heildarupphæð sem er til í séreignarsparnaði í landinu. Í sjóðunum eru eignasöfnin af mismunandi toga, eins og vafalaust hefur komið fram í umræðunni, og eignasöfnin eru þannig að það eru misáhættusamar eignir að baki og líka misauðvelt að losa um þær eignir. Ég hef því miður ekki þær upplýsingar sem segja mér til um hversu aðgengilegur þessi sparnaður er í raun og veru. Hversu aðgengilegar eru þær eignir sem eru að baki þessum séreignarsparnaði? Ef heildarupphæðin í séreignarsparnaði landsmanna er einhvers staðar á bilinu 200–300 milljarðar í því árferði sem nú er er ég ekkert allt of bjartsýn á að 100–120 milljarðar séu til ráðstöfunar í raun og veru með skömmum fyrirvara. Eins og fram kemur á útgreiðslan að vera á þessu tímabili frá því nú, þ.e. þegar lög taka gildi, og þar til 1. október 2010. Þetta er ýkja langur tími, þetta er rúmt ár, en eins og ég segi leyfi ég mér að stórefa það án þess að hafa handbærar tölur að þetta sé til, þ.e. 100 milljarðar til útgreiðslu.

Það er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að sú staða gæti komið upp að ekki væri hægt að greiða út. Með leyfi forseta langar mig að lesa úr kafla I í frumvarpinu, 3. gr. lið b, sem hljóðar svo:

„Á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010 er vörsluaðila séreignarsparnaðar heimilt að fresta útgreiðslum séreignarsparnaðar [skv. ákvæði til bráðabirgða 8] að uppfylltum þeim skilyrðum sem kveðið er á um í þessu ákvæði.

Frestun skv. 1. mgr. skal vera almenn og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir rétthafa séreignarsparnaðar krefjist þess. Frestun á útgreiðslum skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og er háð samþykki þess, sbr. 44. gr. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.

Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að útgreiðslum séreignarsparnaðar verði frestað krefjist hagsmunir rétthafa sparnaðarins eða almennings þess.“

Með öðrum orðum er í þessu frumvarpi ákvæði sem gerir ráð fyrir að sú staða sem ég óttast geti komið upp, þ.e. að ekki verði til þessir 100 eða 120 milljarðar til útgreiðslu á tímabilinu, að þá verði útgreiðsla stöðvuð og þá væntanlega í hverjum lífeyrissjóði fyrir sig, ef ég skil ákvæðið rétt.

Þetta er auðvitað grafalvarleg staða og gæti komið sér afar illa og mun koma sér afar illa fyrir þá sem eru ekki þeir fyrstu sem sækja. Ég ætla að vinda mér aftur í það sem ég ræddi áðan. Hugsunin í verkefnaskrá hæstv. ríkisstjórnar er greinilega sú að séreignarsparnaðurinn eigi að mæta brýnasta vandanum, brýnasta vanda heimilanna. Hann er svo sannarlega til staðar og ég er þess fullviss að hver einn og einasti þingmaður á þessu þingi hefur fengið símtöl, tölvupósta og ábendingar frá landsmönnum, frá vinum og fjölskyldumeðlimum um að það þurfi að vera hægt að ganga í þennan séreignarsparnað. Ég minnist þess ekki að nokkur þeirra hafi sagt að hann þyrfti 63.000 kr. á mánuði. Ég minnist þess ekki að nokkur þeirra sem hafði samband við mig hafi þurft að gera það sem þessi útfærsla gerir ráð fyrir, þ.e. að dreifa á níu mánaða tímabil þannig að 63.000 kr. tíndust inn á sjóðina sem viðkomandi hefði til ráðstöfunar, heldur var í öllum þeim tilvikum sem ég heyrði af um miklu stærri vanda að ræða.

Sem fyrr segir er heildargreiðsla til einstaklings á séreignarsparnaði hæst 630.000 kr. Einnig er í frumvarpinu, eins og áður sagði, heimild til að stöðva útgreiðslur ef það ógnar greiðslustöðu viðkomandi lífeyrissjóðs. Mér finnst við strax vera komin í afar slæm mál, nú þegar. Þessi hætta er vissulega fyrir hendi og ef maður horfir á raunveruleikann og setur þetta dæmi í raunveruleikasamhengi er skynsamlegasta hegðun landsmanna að sjálfsögðu sú að taka sinn séreignarsparnað út og að allir geri það. Vegna þess að ef 100 eða 120 milljarðar af auðseljanlegri eignunum fara er miklu nær fyrir mig ef ég á í svona sjóði að taka líka út eignir mínar vegna þess að við vitum ekkert hvað verður eftir. Vissulega er þetta ákvæði sem ég las upp áðan úr frumvarpinu til þess fallið að stöðva dæmið og er einhvers konar öryggisventill, en þessi heimild Fjármálaeftirlitsins er til staðar, alveg örugglega, og það er hægt að stöðva útgreiðslur.

Aftur að áliti minni hluta efnahags- og skattanefndar. Mér finnst það álit afar skynsamlegt. Þar er talað um þessi mál af skynsemi, þar er bent á að „fyrstur kemur, fyrstur fær“. Sá sem er fyrri til að sækja um að taka út séreignarsparnað er mun líklegri til að geta náð í eignir sínar en sá sem síðar kemur inn í myndina. Með leyfi forseta, stendur þar:

„Ef mikið verður um slíkar útgreiðslur getur viðkomandi lífeyrissjóður að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins stöðvað útgreiðslur til þess að hann þurfi ekki að selja eignir í hraðsölu til tjóns fyrir aðra sjóðfélaga.“

Svo kemur aðeins síðar í minnihlutaálitinu, aftur með leyfi forseta:

„Minni hlutinn flytur breytingartillögu sem leysir vanda þeirra sem eru í verulegum vanskilum sem þeir geta ekki greitt og eiga á hættu að missa húsnæði sitt en eru jafnframt með stórar upphæðir bundnar í séreignarsparnaði. Hugmyndin gengur út á það að lífeyrissjóðurinn gefi út skuldabréf til viðkomandi lánastofnunar og skattheimtunnar með sömu kjörum varðandi gjalddaga og ávöxtun og séreignarsparnaðurinn sjálfur. Þannig má segja að lánastofnunin og skattheimtan verði „séreignarsparandi“ í stað einstaklingsins, sem hins vegar losnar úr viðjum vanskila og forðar heimili sínu frá uppboði. Lánastofnunin fær mjög góðan skuldara í stað vanskilanna og skattheimtan fær skatta með nákvæmlega sama hætti og fyrirhugað var að óbreyttri skattprósentu. Lífeyrissjóðurinn heldur áfram starfsemi sinni eins og ekkert hafi í skorist.“

Virðulegi forseti. Þessi útfærsla hugnast mér vel. „Fyrstur kemur, fyrstur fær“ hugnast mér ekki vel. Ég bendi aftur á 100 milljarða, 120 milljarða, þetta eru óhemjuupphæðir í því mengi sem við köllum séreignarsparnað.

Ég tel útfærsluna í frumvarpinu ekki fullnægjandi, hún mun ekki mæta því markmiði sem kveðið er á um í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar. Hún mun ekki mæta þeim brýna fjárhagsvanda sem er til staðar, hún mun ekki mæta þeim sem verst eru staddir, heldur getur verið um að ræða stórhættulegt mál fyrir lífeyrissjóði landsmanna, lífeyrissjóði okkar, fjöreggið okkar. Ég vara því við að samþykkja frumvarpið eins og það er og skora á ríkisstjórnina og hv. þingmenn að skoða málið nánar, hvort ekki sé skynsamlegt að taka umræðuna um það, þrátt fyrir að við séum hér við 3. umr., að skoða þá útfærslu sem kemur fram í minnihlutaálitinu og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur mælt fyrir, að við notum tækifærið og færum til í staðinn fyrir að greiða út. Þannig held ég að okkur sé best borgið, þannig held ég að lífeyrissjóði og fjöreggi landsmanna sé best borgið.