136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef ekki verið við umræðuna þannig að ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvort Sjálfstæðisflokkurinn er í málefnalegri umræðu eða ekki. En hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði þingreynslu mína að umræðuefni. Hún er allnokkur. En ég man ekki eftir því á minni tíð að ég hafi séð það áður að í umræðu af þessu tagi komi upp hver þingmaðurinn á fætur öðrum og spyrji sína eigin flokksmenn spurninga. Er það hin málefnalega umræða?

Ég tek dæmi af hv. þm. Guðfinnu S. Bjarnadóttur. Hún kom hingað ný á þetta þing og gerði athugasemdir við það sem henni þótti vera málþóf þá. Nú tekur hún sjálf þátt í því sem er versta sort af málþófi. Hún spyr sína eigin flokksmenn spurninga og er þó sjálf á mælendaskrá og á að taka til máls þegar einn ræðumaður er búinn. (GSB: Formaður nefndarinnar lét ekki svo lítið að vera hérna.) Það finnst mér, frú forseti, burt séð frá því hvernig umræðan hefur legið hér í dag, vera leikrit. (Forseti hringir.) Ég rifja það upp að hér er mál á dagskrá sem varðar 7 þúsund ársverk og það bíður líka vegna málþófs sjálfstæðismanna.