136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:51]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Frú forseti. Hugmynd sjálfstæðismanna sem birtist í tillögum minni hluta efnahags- og skattanefndar er sú að séreignarsparnaður geti nýst heimilunum sem eiga í brýnustum vanda og tæknilega útfærslan verði sú að skuldajöfnun verði ofan á, þ.e. skuldajöfnun milli lífeyrissjóðsrétthafa annars vegar og lánastofnunar og/eða skattheimtunnar hins vegar. Slík skuldajöfnun mætir tveimur þumalputtareglum sem ég tel afar mikilvægar. Í fyrsta lagi leysir hún brýnan vanda heimilanna með skuldajöfnuninni og í öðru lagi stendur hún vörð um lífeyrissjóðina og veitir ekki af því líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir er líklegt að þeir veikist, þ.e. lífeyrissjóðakerfið verði það að lögum. Bæði fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og fulltrúar lífeyrissjóðanna vöruðu við útfærslunni sem er í frumvarpinu þegar þeir fjölluðu um málið í hv. efnahags- og skattanefnd.

Hættan sem felst í frumvarpinu virðist vera ljós þeim sem lögðu það fram því fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að útfærslan sé hugsuð fyrir þá sem eiga í tímabundnum fjárhagsörðugleikum en tekið er fram, með leyfi forseta, að:

„Vörsluaðilar séreignarsparnaðar munu annast skil á staðgreiðslu, en sú fjárhæð sem eftir stendur þegar staðgreiðslan hefur verið dregin frá dreifist á allt að níu mánuði. Þessi leið er fyrst og fremst hugsuð til að koma til móts við þá sem eiga í tímabundnum fjárhagserfiðleikum, t.d. vegna atvinnumissis.“

Það er sem sagt gert ráð fyrir því og vonast til þess að einungis þeir muni nýta sér þetta ákvæði. En líklegt er að það verði ekki einungis þeir sem eiga í brýnustum vanda sem noti tækifærið og leysi út séreignarsparnaðinn og þannig má ætla að lífeyrissjóðakerfinu okkar sé hætta búin.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur einnig fram, með leyfi forseta, að:

„Flestir vörsluaðilar séreignarsparnaðar ávaxta lífeyrissparnað viðskiptavina sinna í safni verðbréfa, en slíkt safn er ekki alltaf mögulegt að innleysa að fullu á skömmum tíma án tjóns fyrir þá sem sparnaðinn eiga enda er lífeyrissparnaður að meginstefnu til langtímafjárfesting. Því til viðbótar kemur að nú er viðbúið að vörsluaðilar eigi í söfnum sínum verðbréf sem hafa mun lægra markaðsvirði nú en ef þau yrðu innleyst síðar vegna þess sérstaka efnahagsástands sem nú ríkir. Of mikil opnun á útgreiðslu séreignarsparnaðar nú gæti því leitt til mikils ójafnræðis milli rétthafa. Þannig yrðu auðseljanlegustu eignirnar, t.d. ríkisskuldabréf, seldar fyrst, en lakari eignir sætu eftir með tilheyrandi skaða fyrir þá rétthafa sem ekki kjósa að nýta sér hina tímabundnu heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar. Var því ákveðið, eins og að framan greinir, að stíga ekki stærra skref að sinni.“

Þetta kemur fram í áliti með frumvarpinu og þetta er kjarni málsins. Frumvarpið, verði það að lögum, er líklegt til að veikja lífeyrissjóðina og það kemur enn fremur fram í greinargerð með frumvarpinu að margir óvissuþættir tengist þessu máli. Meðal þeirra eru taldir upp þrír: Áhrif á lausafjárstöðu banka og fjármálafyrirtækja ef hætta er á miklu útstreymi innstæðna. Í öðru lagi að áhrif á verðmæti eignasafna gæti verið mikið, þar á meðal á almenna lífeyrissjóði og þar með réttindi allra lífeyrisþega í landinu. Í þriðja lagi er talað um að hætta sé á því að úttektir verði mun meiri en lagt er til í forsendunum vegna væntinga um breytingar í skattkerfinu og frekari virðisrýrnun eigna þannig að það má alveg lesa í gegnum allt frumvarpið að þeir sem gera álitsgerðina reikna með því að þetta verði til veikingar á lífeyrissjóðakerfinu. Ég vil leyfa mér að benda á að þetta atriði megum við ekki hafa að engu. Við verðum að taka það fyrir.

Það er líka gert ráð fyrir í frumvarpinu að Fjármálaeftirlitið geti krafist þess að útgreiðslum séreignarsparnaðar samkvæmt frumvarpinu verði frestað ef hagsmunaaðilar krefjast þess og ef hagsmunir rétthafa sparnaðarins eða almennings krefjast þess, þ.e. ef hætta er á að sjóðirnir geti ekki staðið undir skuldbindingunum þá eiga þeir það á hættu annaðhvort að Fjármálaeftirlitið stöðvi þá, þ.e. útgreiðslu úr lífeyrissjóðunum eða að lífeyrissjóðirnir sjálfir biðji um heimild til Fjármálaeftirlitsins að stöðva útgreiðsluna. Þetta er því mikið álitamál.