140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sláandi að setja hlutina jafnskýrt fram og hv. þingmaður gerir. Það er ekki einasta það að enginn rökstuðningur sé fyrir þeim tillögum sem bornar eru á borð hvað varðar efnahagsmálin, það er ekki einungis það að þær tillögur muni væntanlega ekki, nái þessi tillaga fram að ganga, komast til framkvæmda fyrr en einhvern tímann á næsta ári rétt áður en kjörtímabili hæstv. ríkisstjórnar lýkur, heldur liggur það fyrir að þær áætlanir sem gerðar hafa verið um kostnað við breytingu á ráðuneytum hafa ekki staðist.

Þær stóðust ekki þegar innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið voru sett á laggirnar. Og nú ber svo við, þegar hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leitaði eftir því í vinnu nefndarinnar að fá upplýsingar um kostnað, af því að þær upplýsingar lágu ekki fyrir þegar málið var lagt fram — strangt til tekið þarf ekki að leita álits fjármálaráðuneytisins af því þetta er þingsályktunartillaga, en það vita allir að þetta er tillaga sem kallar á fjárútlát. Það hefði því verið skynsamlegt að vera með þessar tölur fyrir fram, en þá er svarið á svo breiðu bili að ómögulegt er að gera sér grein fyrir hver kostnaðurinn verður, 125–225 milljónir, þetta er nú ansi rúmt svo að ekki sé meira sagt.

Það sem stendur upp úr, þrátt fyrir þá mjög svo rúmu áætlun, er það að við getum alveg eins gert ráð fyrir því, miðað við þá lausung sem er í ríkisfjármálum hvert sem litið er, að upphæðin fari fram úr efri mörkum þeirrar tölu.