140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:03]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Við höfum rætt þetta mál nokkuð en þrátt fyrir það eru margir vinklar á því óræddir. Ég hef reynt að einbeita mér að efnahagsmálunum og ætla að fara aðeins yfir hvernig þeim verður háttað í nýrri ráðuneytaskipan, eftir því sem hægt er að segja miðað við þær uppýsingar sem koma fram í þingsályktunartillögunni.

Það er ljóst, ef horft er út frá efnahagslegu sjónarmiði, að mjög mikilvægur þáttur í því að tryggja til að mynda fjármálalegan stöðugleika og góðar undirstöður undir hagstjórn er að stofnanaumgjörðin sé eins og best verður á kosið. Hér voru gerð mistök á sínum tíma þegar fjármálaeftirlit eða bankaeftirlit var aðskilið Seðlabanka Íslands. Eftirlit með fjármálastöðugleika var skilið eftir í Seðlabanka en eftirlit með fjármálamarkaði var flutt yfir í sér stofnun sem ber nafnið Fjármálaeftirlitið í dag. Þetta voru afleiðingar af þróun sem átt hafði sér stað í Evrópu og hinum vestræna heimi á 10. áratugnum. Flestar þjóðir eru orðnar sammála um að þetta hafi verið óheillaskref og að nokkru leyti megi rekja fjármálakreppuna miklu sem hófst um mitt ár 2007 til þessara ráðstafana.

Í stjórnarsáttmála var talað sérstaklega um að til að bæta úr þessu og bæta hagstjórn yfirleitt og yfirsýn yfir efnahagsmál, yrði sett á nýtt ráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Því voru færð aukin völd og undir það færðar stofnanir eins og Seðlabankinn sem hafði verið undir forsætisráðuneytinu. Að mörgu leyti var þetta heillaspor þrátt fyrir að kannski hafi ekki verið gengið alveg nógu langt, að því leyti að ráðuneytið fékk raunverulega ekki þann kraft sem málaflokkurinn gefur tilefni til.

Ef farið verður eftir þessari þingsályktunartillögu á nú að umbreyta þessu öllu rúmum tveimur árum seinna og taka eina hringekju. Færa á hluta af starfsemi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins aftur undir fjármálaráðuneytið og annan hluta á að færa undir nýtt atvinnuvegaráðuneyti sem samanstendur af iðnaðar-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálaflokkunum.

Það er augljóst að með þessari nýju skipan er verið að búa til stofnanaumgjörð sem gengur í raun á móti því sem aðrar þjóðir eru að gera og með henni er ekki tekið á því sem talin er meðal annars hafa verið ástæðan fyrir fjármálakreppunni miklu, þ.e. að eftirliti með fjármálamarkaði væri að vissu leyti ábótavant vegna þess að ekki væri nægilega skýrt hver bæri ábyrgð á fjármálastöðugleika. Það er ljóst að með því að vista Seðlabanka í fjármálaráðuneyti, en lög og reglur um fjármálamarkaði og Fjármálaeftirlitið í nýju atvinnuvegaráðuneyti, er verið að mynda gjá á milli þessara mikilvægu stofnana, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Ég er þeirrar skoðunar á bilið á milli þeirra eigi að reyna að brúa sem mest með sameiningu bankaeftirlitshluta Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, en hér er verið að mynda gjá og sú gjá er jafnvel enn stærri en sú sem var fyrir hrunið.

Ég tel því að ekki sé nægjanlega mikil hugsun í því hvernig efnahagsmálunum sé best fyrir komið og ég tel að þetta sé afturför frá því sem nú er.

Að störfum er nefnd þriggja sérfræðinga sem hefur verið að fara yfir umgjörð fjármálamarkaða. Í henni sitja þrír menn sem eiga að heita sérfræðingar á sviðinu, þ.e. Finninn Kaarlo Jännäri, Frakkinn Pierre-Yves Thoraval og Jón Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Norræna fjárfestingabankans, (Gripið fram í: … Icesave.) fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og maðurinn sem var formaður Fjármálaeftirlitsins á þeim tíma þegar bankakerfið hrundi. Tveir þessara manna, Jännäri og Thoraval, hafa mælt eindregið með því að bankaeftirlit verði flutt inn í Seðlabanka en einn hefur verið því fremur mótfallinn, það er Íslendingurinn í hópnum.

Ég hef verið mjög þeirrar skoðunar að þegar breyta á til dæmis stofnanaumgjörð eða reyna að koma stofnunum fyrir þannig að fyrirkomulagið verði sem árangursríkast, sé gott að fá utanaðkomandi menn eða konur til þess að veita ráðgjöf í því sambandi. Íslendingar, vegna hinna nánu tengsla sem eru á milli þeirra sem hafa starfað í kerfinu og í því stofnanafyrirkomulagi sem hefur ríkt á Íslandi þó nokkra hríð, eru of nátengdir því til að þeir séu að fullu dómbærir á hvernig því skuli háttað. Þess vegna kemur mér á óvart að fremur skuli vera farið eftir áliti minni hluta þessarar nefndar sem ég fjallaði um en áliti þessara viðurkenndu erlendu sérfræðinga, Kaarlos Jännäris og Pierre-Yves Thoravals, mér finnst það miður.

Það vill svo til að ég er sömu skoðunar og þessir tveir sérfræðingar og hef verið lengi. Ég held að ég hafi fyrst skrifað um það 2006 að til að bæta og auka eftirlit með fjármálalegum stöðugleika væri rétt að bankaeftirlit Fjármálaeftirlitsins væri sett inn í Seðlabankann.

Í þessari þingsályktunartillögu er farin akkúrat öfug leið. Gjáin er breikkuð og sagt að það sé í góðu lagi vegna þess að brúin yfir gjána verði tryggð með skýrum boðleiðum og skýrum lögum sem kveði á um hvernig þessar stofnanir eiga að hafa samskipti og samvinnu. Ég held að það sé gryfja sem menn falla í. Óhjákvæmilega er það þannig að þegar tvær stofnanir eru komnar hvor undir sitt ráðuneytið verður alltaf einhver togstreita þar á milli, um upplýsingar og um aðgerðir sem grípa þarf til og annað slíkt. Þannig að ég held að það sé mjög misráðið hvernig efnahagsmálum er háttað samkvæmt þessari tillögu.

Ég hef hér tæpt á örlitlu atriði sem þessi þingsályktunartillaga snertir. Ég mun í síðari ræðum mínum fara betur yfir aðra galla sem ég sé á henni, til að mynda hvernig auðlinda- og umhverfismálum verður skipað. En ég mun gera það í síðari ræðu minni.