141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:13]
Horfa

Jón Bjarnason (U):

Virðulegi forseti. Þegar sú ríkisstjórn sem nú situr tók við blöstu við gríðarleg verkefni, gríðarleg vandamál en líka miklir möguleikar, miklir möguleikar til sóknar, til að forgangsraða með nýjum hætti á grundvelli nýrra gilda í samfélaginu, forgangsraða í þágu velferðar, í þágu grunnatvinnugreinanna, í þágu jöfnuðar. Þessi tækifæri áttum við.

Vissulega hefur í einstökum atriðum náðst árangur en ógæfa þessarar ríkisstjórnar var í upphafi sú að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hleypa þar með stórvandamáli inn í íslenskt samfélag, skipta þjóðinni upp í því stóra máli sem átti ekkert erindi til þjóðarinnar á þeim tímapunkti, fjarri því og reyndar aldrei.

Þá var líka farið í þá vegferð að reyna að breyta stjórnarskránni. Það var ekki stjórnarskránni að kenna að hrunið varð hér. Því miður beygði meiri hluti þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sig undir kröfu Samfylkingarinnar um að senda inn umsókn að Evrópusambandinu. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vann stórsigur í alþingiskosningunum 2009. Á grundvelli heilbrigðra gilda og loforða ákvað flokkurinn samkvæmt stefnu sinni að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu. Þegar sú umsókn var síðan send, studd þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var verið að ganga á bak stefnu flokksins. Flokkurinn Vinstri hreyfingin – grænt framboð var jú stofnaður til að berjast gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu. Að mínu mati voru þetta hrein svik við grunngildi flokksins og þá kosningabaráttu sem hann bar uppi og vann sinn stórsigur út á.

Það var engin ástæða til að láta undan þessari eins máls kröfu Samfylkingarinnar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samfylkingin var nýkomin út úr hrunstjórninni með Sjálfstæðisflokknum, nokkuð sem hún gleymir stundum. Forsætisráðherra sat í ríkisfjármálanefnd í hruninu en kemur hér eins og hún hafi aldrei komið þar nærri. Það finnst mér ekki heiðarlegt reyndar eins og fleira sem hæstv. forsætisráðherra hefur staðið fyrir (Gripið fram í.) og ég ætla ekki að fara að rekja verkstjórnarleysi hennar hér. Hæstv. utanríkisráðherra hefur alltaf verið því fylgjandi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og verið hreinn í því þó svo hann hafi þar vonandi aldrei erindi sem erfiði.

Það sem við erum að ræða hér um (Utanrrh.: Bíddu bara.) að endurskoða stjórnarskrána þá vil ég segja að það er gott að verið sé að endurskoða einstaka þætti hennar. En það að tefla áfram fullveldi þjóðarinnar í hættu finnst mér hið alvarlegasta mál. Það átti aðeins að kíkja í pakkann. Þegar umsóknin var send var sagt að hún ætti að taka bara eitt ár, kannski tvö ár, þrjú ár og þá ætti að vera komin niðurstaða. Síðan voru það fjögur ár og að minnsta kosti fyrir kosningar. Öll þessi loforð og allar þessar yfirlýsingar þeirra sem í raun voru að svíkja kjósendur sína hafa ekki staðist.

Nú tekur steininn úr þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð samþykkir á landsfundi sínum, flokkurinn sem var stofnaður gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu, að halda áfram aðlögunar- og aðildarviðræðum að Evrópusambandinu yfir á næsta kjörtímabil og verja til þess milljörðum kr. Hvað ætli þeir sem bíða eftir úrlausnum í skuldamálum heimilanna, kjörum heilbrigðisstarfsfólks, segi við því og þeirri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að það skuli vera Evrópusambandsumsóknin sem skuli taka til sín áfram (Gripið fram í: … til þjóðarinnar.) orku þingmanna og vonandi utanríkisráðherra sem lætur af störfum eigi síðar en eftir kosningar? (Utanrrh.: Þú vilt mig áfram.)

Frú forseti. Þarna skilur á milli. Ég segi að ef það yrði til þess að umsóknin að Evrópusambandinu yrði dregin til baka á morgun þá mætti þessi ríkisstjórn fara frá.