141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er vor í lofti og fallegt veður. Framtíðin bíður eftir okkur handan við hornið. Takist þingmönnum ekki að fella ríkisstjórnina eftir þessa vantraustsumræðu í dag þá gerist það 27. apríl þegar landsmenn ganga til kosninga, kjósa nýtt Alþingi, kjósa nýja þingmenn og fá þá tækifæri sjálfir til að kjósa ríkisstjórnina burtu.

Virðulegi forseti. Það fór hálfpartinn um mig í sætinu áðan þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gaf í skyn að Vinstri grænir vildu leiða ríkisstjórn hér áfram næstu fjögur ár. Ég tel að þingmaðurinn sé á algjörum villigötum því að vantrauststillagan sem flutt er hér í dag verður vonandi til þess að meiri hluti þingmanna nái að fella ríkisstjórnina og ef ekki nú, þá gerist það í alþingiskosningunum.

Það er löngu vitað að það er annar meiri hluti inni í þinghúsinu en utan þess. Ríkisstjórnin hefur ekki haft meiri hluta um langa, langa hríð. Á einhvern ótrúlegan hátt hefur henni tekist að semja sig að niðurstöðu í einstökum málum með stuðningi þingmanna úti í sal. En þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin hefur tamið sér og þess vegna eru málin komin í svo mikið óefni.

Hér er verið að blanda saman tveimur óskyldum málum, að frumvarp til stjórnarskipunarlaga náist ekki í gegnum þingið ef ríkisstjórnin verður felld í dag og svo öfugt. Það er nú svo, virðulegi forseti, að ríkisstjórnarflokkunum hefur algjörlega mistekist að leiða þessi stjórnarskrármál til lykta. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa allt þetta kjörtímabil lýst yfir miklum vilja til að setjast niður með stjórnarflokkunum og semja um þau ákveðnu atriði sem þarf að breyta í núgildandi stjórnarskrá. Hér er ekki verið að tala um að skrifa eigi nýja stjórnarskrá heldur að breyta því sem breyta þarf.

Hv. þm. Þór Saari taldi í framsöguræðu sinni fyrr í dag að 70 ára tilraun mistækist yrði þetta frumvarp ekki að lögum fyrir vorið. Ég ætla að andmæla því, virðulegi forseti, og eins þeim orðum hæstv. forsætisráðherra að jafnaðarmönnum einum sé treystandi til að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Þvílík firra, þvílíkt bull.

Stjórnarskrármálin eru nú komin í þann farveg að lagt er til að einungis eigi að breyta breytingargrein stjórnarskrárinnar en ég tel að það sé ekki fært. Verði stjórnarskrármálið knúið í gegnum þingið á mjög litlum meiri hluta þingmanna verður það einfaldlega fellt á næsta þingi. Eins er með breytingarákvæði stjórnarskrárinnar sem lagt er til að komi hér fram núna rétt undir þinglok. Það er stjórnarskrárbreyting og á þá að hafa sama hlutfall og frumvarpið sjálft í heild sinni hér á þinginu.

Hæstv. ríkisstjórn verður að vita að það er ekki hægt að koma þessu bara í gegnum þingið og vona svo hið besta. Sá málflutningur að með því að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar sé hægt að halda málinu öllu lifandi fram á næsta kjörtímabil skiptir ekki máli. Málið kemur til með að lifa allt næsta kjörtímabil vegna þess að pólitískur vilji er fyrir því að breyta ákveðnum atriðum í stjórnarskránni. Það þarf ekki að breyta breytingarákvæðinu til að stjórnarskrármál verði á dagskrá á næsta þingi. Það er einkennilegt að í frumvarpi þeirra formanna um þetta er lögð til sú breyting til að bæði ákvæðin verði í gildi í einu, það ákvæði sem breytir stjórnarskránni í dag, og ætlast er til að tekið sé til umræðu í lok kjörtímabils, og það nýja ákvæði sem lagt er til núna. Þvílíkt rugl, en þetta er í takt við annað sem þessir stjórnmálaflokkar hafa lagt til.

Við framsóknarmenn höfum alltaf talað fyrir hagsmunum heimilanna, að þeim verði fært að reka sig. Við höfum lagt áherslu á umræður um atvinnulífið á þessu kjörtímabili, virðulegi forseti, en því miður hefur mikið af vinnu kjörtímabilsins farið í súginn, hér eru þingmenn að ræða meira og minna sömu málin og alltaf verið að gera lagabætur í stað þess að setja lög sem halda til framtíðar.

Virðulegi forseti. Tækifærin eru á hverju strái, eins og ég sagði í upphafi. Framtíðin blasir við okkur. Takist ekki að fella ríkisstjórnina í dag þá göngum við stolt til kosninga. Við fellum þessa ríkisstjórn þann 27. apríl í síðasta lagi. Við hefjum nýtt framfaraskeið í þágu nútíðarinnar og ekki síður til framtíðar.