141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[13:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum í raun tvær tillögur, annars vegar um vantraust á ríkisstjórnina og hins vegar um þingrof og nýjar kosningar. Ástæða þess að sú þingsályktunartillaga sem felur í sér þessar tvær tillögur er komin fram er tillaga frá hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni og Guðmundi Steingrímssyni og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur um að stjórnarskrárfrumvarpið eins og það liggur fyrir verði ekki afgreitt sem slíkt, heldur verði hluti þess afgreiddur til að hægt sé að þoka málinu áfram inn á næsta þing.

Virðulegur forseti. Ég tek undir tillögu þeirra þriggja vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að ekki sé tími til þess að ljúka því frumvarpi um breytingu á stjórnarskránni eins og það liggur nú fyrir þinginu. Engum dylst og hefur ekki dulist miðað við ræður mínar hér að ég er ekki sammála því ferli sem farið var í með stjórnarskrána. Þegar maður skoðar ýmis ákvæði í stjórnarskránni, eins og persónukjör sem væri ótrúlega áhugavert að vera fylgjandi, sá maður það gleggst í kosningu til stjórnlagaþings að af þeim 500 sem þar voru í persónukjöri náði fólk vítt og breitt á landsbyggðinni ekki eyrum þeirra sem greiddu atkvæði. Það voru þekkt andlit í fréttum sjónvarps og annars staðar sem náðu kjöri. Það var ekki „hin breiða fylking af landsbyggðinni“ og af höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna þurfum við að velta fyrir okkur hvort og þá hvernig við tökum upp og afgreiðum persónukjör.

Virðulegur forseti. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvað það þýðir og hvort við séum hlynnt því að jafna vægi atkvæða. Hvað þýðir það fyrir höfuðborgarsvæðið versus landsbyggðina? Það þarf að skoða frekar. Ég er hlynnt því og hef sagt það áður að auðlindir eigi að vera í eigu ríkis og í umsjón þess. Ég hef alla tíð verið hlynnt því og er það enn. Það er rangt sem fram hefur komið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alla tíð staðið gegn því. (Utanrrh.: Alltaf.) Það er rangt, hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, og það verður ekki satt þó að þú gjammir endalaust í þá veru.

Virðulegur forseti. Það er ekki bara ágreiningur í þinginu við Sjálfstæðisflokkinn um breytingu á stjórnarskránni eins og samfylkingarmenn allir og vinstri grænir tala hér um. Það er bullandi ágreiningur um tillögurnar hjá fræðasamfélaginu, það er haldinn hver fundurinn á fætur öðrum vegna þess ágreinings sem er um það sem hér liggur fyrir. Svo leyfir fólk sér að segja að það sé þjóðarsátt um fyrirliggjandi frumvarp. Það er rangt. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem var ráðgefandi fyrir þingið og umfjöllun málsins var sagt að drögin ættu að liggja til grundvallar. Í mínum málskilningi er það ekki hið sama og að það eigi að samþykkja allt sem þar stendur. Það er bara ekki þannig en þess vegna er ég hlynnt þeirri tillögu sem fram hefur komið, að við reynum að ganga frá og klára ákveðna þætti til að hægt sé að halda áfram með stjórnarskrárfrumvarpið á næsta þingi.

Virðulegur forseti. Ég ber hins vegar ekkert traust til núverandi ríkisstjórnar, akkúrat ekki neitt, og er tilbúin að greiða atkvæði með vantrausti á þessa ríkisstjórn hvenær sem er þó að ekki sé nema vegna landsdómsmálsins, virðulegur forseti, og þess að stjórnarflokkarnir (Gripið fram í: Af hverju ljúkið þið ekki …?) tveir með aðstoð annarra þingmanna knúðu í gegn (Utanrrh.: Hann var harðastur …) (Forseti hringir.) hluti og meðal annars út af þætti Samfylkingar, hæstv. utanríkisráðherra, sem er flokknum til ævarandi skammar (Gripið fram í: Já.) sem og öðrum þingmönnum sem þar greiddu atkvæði. (Gripið fram í: … með í þeim hópi.) Steininn tók úr, hæstv. utanríkisráðherra, þegar síðan var gerð tilraun til að koma í veg fyrir það ódæði sem landsdómsmálið var, að draga til baka ákæruna á hæstv. þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde. Þá skilaði ríkisstjórnin auðu (Utanrrh.: Ekki utanríkisráðherra.) og þó að það sé ekki nema þess vegna, virðulegur forseti, vegna framgöngu þessara tveggja flokka í landsdómsmálinu, (Gripið fram í: Ekki …) nægir það mér til þess að segja já við vantrausti á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Svo mikið er víst og mér er slétt sama þó að hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson gjammi hér enn einu sinni og segist ekki hafa komið nálægt því. Hann er partur af þeirri Samfylkingu sem er í ríkisstjórn (Gripið fram í: Nei, nei.) og hann er partur af þeirri ríkisstjórn sem hér ríkir. (Gripið fram í.) Vantrauststillagan beinist að ríkisstjórninni. Það er ekkert óheiðarlegt við þetta, hæstv. utanríkisráðherra. Stundum færi þér betur að þegja. (Gripið fram í: Jah!) (Utanrrh.: Það var Geir Haarde …)

(Forseti (ÞBack): Gefið hv. þingmanni frið til að halda ræðu sína.)

Þess vegna, virðulegur forseti, enn og aftur, þó að það væri ekki nema fyrir framgöngu þessara flokka í því máli sem ég gerði að umræðuefni. Hæstv. utanríkisráðherra kallaði inn í þingsalinn en það er fjarri mér, virðulegur forseti, að nokkurn tímann á lífsleiðinni verði hv. þm. Þór Saari leiðtogi lífs míns. Þvílíkt bull. (Gripið fram í: Hann er orðinn það.) (ÓÞ: Hann er það í dag.) Þvílíkt bull. Ef það er ekki hægt að styðja vantraust á ríkisstjórnina öðruvísi en að hv. þm. Þór Saari — það þarf ekki hann til, virðulegur forseti, til að koma (Gripið fram í.) með vantrauststillögu á ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Hún hefur komið hér fram áður. Gjammar nú hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir. (ÓÞ: Hvar er ykkar vantrauststillaga?) Hún hefur komið fram, hv. þingmaður.

(Forseti (ÞBack): Gefið ræðumanni hljóð.)

Við skulum sjá hvað verður um þessa tillögu. Ég styð (Gripið fram í.) vantrauststillögu á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. (Utanrrh.: Og Þór Saari.) Ef ég gæti, hæstv. utanríkisráðherra, mundi ég líklega styðja vantrauststillögu á Þór Saari. [Hlátur í þingsal.]