141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[13:56]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegur forseti. Vorið 2009 var sagt marka upphaf nýrra tíma á Íslandi. Gamla Ísland var að sögn í öskustónni. Nú skyldi taka til hendinni og marka nýtt upphaf, fyrsta norræna velferðarstjórnin var sögð komin að völdum.

Skjaldborg um heimilin var boðuð og loforð gefin um að nú skyldu þau verða í forgrunni, ekki fyrirtækin eða stórútgerðin eins og verið hefði. Nú skyldu vinstri menn loksins ná að setja áherslur sínar í forgrunn.

Fyrsta hreina vinstri stjórnin á Íslandi ætlaði að brjóta upp hefðir og venjur, endurskrifa stjórnarskrána og leggja þar áherslu á hugðarefni sín. Einkaeignarrétturinn átti að fá minna vægi en félagsrétturinn, þjóðarviljinn meiri. Vinstri menn og róttæklingar hrósuðu sigri og sögðu borgaraleg öfl hafa beðið skipbrot. Hið nýja Ísland skyldi markað af hugsjónum vinstri manna og róttæklinga.

Fyrsta breytingin í takt við þessi fyrirheit var gerð við þingsetningu vorið 2009. Breytingin var ekki stór en hún var táknræn. Karlmenn á Alþingi skyldu ekki lengur vera með hálstau í þingsal, hálstau væri merki um borgaralegan hugsunarhátt, hugsunarhátt sem tilheyrði gamla Íslandi.

Eftir hrunið 2008 var brýnasta verkefni stjórnvalda að koma efnahagslífinu aftur af stað til að tryggja og bæta kjör hins almenna manns á Íslandi. En hvað blasir við? Skattar hafa verið hækkaðir upp úr öllu valdi og ráðstöfunartekjur heimilanna þannig lækkaðar. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar benda reyndar á að um 60 þús. manns borgi nú lægri skatta en áður. Það er rétt. Tekjur hafa lækkað. Fólk gengur um atvinnulaust og fólk er flutt til útlanda í tilraun til að sjá sér og sínum farborða. Það er einfalt að sýna fram á að vegna þess að fólk hefur lægri tekjur borgar það lægri skatta. Ríkisstjórnin segir því ósatt þegar hún heldur því fram að skattbyrði hafi lækkað vegna góðviljaðra aðgerða hennar.

Fjárfesting er sú minnsta á lýðveldistímanum. Það er vegna hringls ríkisstjórnarinnar í skattumhverfinu, vegna þess að hún stendur ekki við gerða samninga. Fjárfestar hafa ekki trú á Íslandi. Fjárfestingu sem ríkisstjórnin hefur vanrækt fylgja hins vegar ný störf, hagvöxtur og bætt lífskjör.

Pólitísk áhætta er á pari við það sem þekkist í ríkjum Norður-Afríku, Rússlandi og Kína samkvæmt erlendum rannsóknastofnunum. Þetta hefur leitt til þess að fjárfestar vilja ekki fjárfesta á Íslandi. Ráðherrar tala feimnislaust um þjóðnýtingu eigna útlendinga, stjórnarþingmenn tala um að eignarréttinn eigi að skerða. Hver ætti að vilja hætta fjármunum sínum í slíku fjárfestingarumhverfi?

Ríkisfjármálin eru í algerum ólestri. Enron-bókhald er stundað og árangurinn allur ýktur og skrumskældur. Sagt er að hallinn hafi batnað um hundruð milljarða. Þar er litið fram hjá þeirri staðreynd að um einskiptiskostnað var að ræða vegna hruns bankakerfisins. Undirliggjandi rekstur er hins vegar í molum og mikið verk fyrir höndum að koma honum í lag.

Allan pólitískan vilja hefur vantað til að afnema gjaldeyrishöftin. Höftin ala á misskiptingu og því lengra sem líður, því erfiðara er að afnema þau. Hér hefur ríkisstjórnin algerlega brugðist.

Vinstri menn og róttæklingar notuðu tækifærið á valdastóli til að halda pólitísk réttarhöld. Það ráðslag verður þeim til ævarandi skammar.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um hvernig fyrsta hreina vinstri stjórnin hefur haldið á málum síðustu fjögur árin.

Virðulegi forseti. Það voru fögur fyrirheit sem vinstri menn og róttæklingar gáfu viðhlæjendum sínum vorið 2009. Nú, fjórum árum síðar, virðist árangur fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar á Íslandi vera sá helstur að karlmenn þurfa ekki lengur að ganga með hálstau í þessum sal. Þetta hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir vinstri menn og róttæklinga. Óánægjan kemur skýrt fram þegar horft er yfir liðsheildina. Samstaðan, skjaldborgin, einhugurinn sem boðaður var vorið 2009 birtist í því að nú hafa 22 stjórnmálahreyfingar tilkynnt framboð til næstu alþingiskosninga. Af þessum 22 framboðum eru 19 á vinstri vængnum.

Vantraust það sem hér er boðað er stutt þeim rökum að fyrstu hreinu vinstri stjórninni hafi mistekist að umbylta grunnlögum okkar Íslendinga, hún hafi játað sig sigraða. Ég styð þetta vantraust, en ekki vegna þeirra ástæðna sem hv. þm. Þór Saari ber fram. Ég styð þessa tillögu vegna þess að stjórnin er óhæf til að stjórna landinu. Efnahagsmálin eru í rúst og stjórnin stundar fúsk í lagagerð. Það er þess vegna sem ég styð þessa tillögu, ekki vegna rakanna sem flutningsmaður ber fram. Þau tel ég ótæk.

Virðulegi forseti. Ég styð (Gripið fram í.) þetta vantraust á þessa ríkisstjórn.