143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

samstarf á norðurskautssvæðinu og staða Íslands.

388. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið ágæt samstaða hér á þingi um áherslur okkar Íslendinga í málefnum norðurskautssvæðanna og þeim hefur verið gert hátt undir höfði í stefnumörkun, bæði af hálfu ríkisstjórna og Alþingis, á undanförnum árum þar sem við að sjálfsögðu leggjum áherslu á friðsamlegt samstarf ríkja á norðurslóðum, sjálfbæra nýtingu auðlinda, rétt frumbyggja og fleiri leiðarstef og ætlumst að sjálfsögðu til þess að við séum teknir sem fullgildir aðilar að því samstarfi á allan hátt. Ísland hefur að mínu mati öll efni til þess að gera slíkar kröfur og hefði reyndar gjarnan mátt verða heimaríki fyrir fasta skrifstofu heimskautaráðsins ef um það hefði getað orðið samstaða en þar reyndust Norðmenn bjóða betur en við. Engu að síður var því heitið að staðinn yrði vörður um þær stofnanir sem hér eru á Íslandi og tengjast norðurskautssvæðinu og að hlutur Íslands yrði í engu skertur í þeim efnum.

Ég held að það sé ástæða til að leggja áherslu á til viðbótar landfræðilegri legu Íslands og þeirri staðreynd að við erum eitt af sjálfstæðum ríkjum á norðurskautssvæðinu að Ísland er eina vestnorræna landið sem hefur sem sjálfstætt ríki fullgilda aðild á þeim forsendum að heimskautaráðinu og gæti því haft mjög mikilvægu hlutverki að gegna, líka sem útvörður þessara mála hér á norðvestursvæðinu. En því miður er það svo að tilhneigingar hefur gætt til þess að halda Íslandi utan við ákveðna þætti þar sem strandríkin eða þau sem skilgreina sig sjálf sem strandríki að heimskautasvæðinu, þ.e. Rússland, Kanada, Bandaríkin, Noregur og Danmörk, fyrir hönd Grænlands, eigi með sér samstarf, óformlegt eða formlegt eftir atvikum, um vissa þætti og haldi Íslandi þar fyrir utan. Eru að berast af því fréttir til dæmis að samstarf sé í gangi milli þessara ríkja um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og jafnvel auðlindanýtingar í víðara samhengi á svæðinu án þess að Ísland sé með í því samstarfi miðað við það sem ég fæ séð af umfjöllun fjölmiðla o.s.frv.

Ég hef því leyft mér að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. utanríkisráðherra sem þessu tengjast og þær eru:

„1. Hver er afstaða ráðherra til þátttöku Íslands í svonefndu fimm ríkja samstarfi þjóða á norðurskautssvæðinu? Hefur þess verið krafist að Íslandi verði veitt aðild að samstarfinu og ef svo er, hverjar hafa undirtektirnar verið?

2. Hefur Ísland verið viðurkennt sem strandríki í Norðurskautsráðinu? Ef svo er ekki, hvernig vinna þá íslensk stjórnvöld að því að tryggja Íslandi þá stöðu?

3. Hefur verið haft samráð við Ísland um vinnu sem fram fer á vettvangi fimm ríkja samstarfsins um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar í norðurhöfum eða eftir atvikum aðra auðlindanýtingu?“