144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum tilhneigingu til þess, og það er gott og eðlilegt, að bera okkur saman við þau lönd sem við viljum helst líkjast. Það er umhugsunarefni að við erum í þeirri stöðu að kaupmáttur hefur aukist meira hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Atvinnuleysi er mjög lítið, laun hafa hækkað meira og hér hefur verið stöðugleiki sem er eitthvað sem við Íslendingar höfum alla jafna ekki átt að venjast, verðbólga afskaplega lág. En við horfum að öllu óbreyttu fram á gríðarlegan óróa á vinnumarkaði og það er eitthvað sem við verðum að ræða.

Við viljum hafa miðstýrða samninga og við erum með stóra launþegahreyfingu og síðan atvinnurekendur sem semja ekki bara um kaup og kjör heldur stýra sömuleiðis að stærstum hluta lífeyrissjóðakerfi landsins. En núna er þetta einfaldlega ekki að virka. Menn geta haft allar skoðanir á því hver kröfugerðin á að vera, hvað á að gera í kjaramálum, þetta er ekki að virka og það er mjög alvarleg staða.

Það er mjög sérstakt að við sjáum við þessar aðstæður fram á kollsteypur á vinnumarkaði og mikið um verkföll. Það er ekkert að því að ræða það hvernig verkfallsréttinum er beitt. Verkfallsrétturinn er upphaflega kominn til sem vopn láglaunafólks vegna þess að það hafði ekki önnur ráð. En við erum svo sannarlega komin á annan stað núna.

Staðan er grafalvarleg og það verður eitthvað að gerast til að koma í veg fyrir mjög alvarlega hluti. Við skulum hafa það alveg á hreinu (Forseti hringir.) að ef við erum að hugsa um þá sem minnst mega sína þá munu þeir fara verst út úr hárri verðbólgu og miklum óróa og átökum og vinnudeilum. Það fólk mun fara langverst út úr því.