144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég leyfi mér að koma upp í aðra ræðu þó að kannski hefði erindi mitt fullt eins getað átt við undir liðnum fundarstjórn forseta. Ég ætla að hafa þetta eins stutt og ég mögulega get.

Ég vildi segja að samkvæmt þingsköpum á þetta plagg að koma fram og fjárlaganefnd má leita umsagnar nefnda varðandi einstök atriði tillögunnar. Ég veit að þessi tillaga er lögð hér fram í fyrsta skipti. Um útgjaldaáætlun er talað í einum kafla og það er ekki gríðarlega efnismikið, þvert á móti mjög yfirborðskennt. Það er ekki farið niður í fjárlagaliði sem væri kannski fulllangt gengið, ég geri mér grein fyrir því, en það er varla talað um einstaka málaflokka í þessu plaggi nema sums staðar vikið að því með mjög óljósu orðalagi. Ég tel því nauðsynlegt að nefndirnar fái þetta plagg til sín og geti þá leitast við að fá betri upplýsingar um rammann fyrir þeirra málaflokka ef þetta verður samþykkt svona. Eins vil ég vísa í 1. umr. um fjárlagafrumvarpið, þar er samkomulag um ákveðna skipan. Ráðherrarnir mæta hér, fjármálaráðherra fyrri daginn og fulltrúar úr fjárlaganefnd og síðari dag umræðunnar mæta aðrir ráðherrar. Það er afmarkaður ræðutími en alveg skýrt að það er hægt að ná tali af ráðherrum og spyrja þá spurninga. Þó þótti reyndar tíminn í velferðarmálin of stuttur, enda er þar um að ræða helming útgjalda ríkissjóðs sem fellur undir velferðarnefnd ef frá eru tekin vaxtagjöldin. Það voru margar spurningar sem ekki var hægt að spyrja, auk þess sem þingsköpum var breytt þannig að nefndirnar fá ekki málin til umsagnar. Það var gerð athugasemd við það að ég sem formaður velferðarnefndar ætlaði eins og alltaf að taka frumvarpið til umfjöllunar í velferðarnefnd, ekki til að við skiluðum athugasemdum til fjárlaganefndar heldur eingöngu til þess að nefndarmönnum gæfist kostur á að spyrja út í fjárlagatillögur fyrir þennan mikilvæga málaflokk. Þetta þarf að laga í þingsköpum þannig að það sé ekki komið í veg fyrir að við getum fengið ákveðnar upplýsingar.

Hins vegar eigum við að veita umsögn um þetta mál til fjárlaganefndar. Ég tek því vel, enda verðum við að fá betri upplýsingar. Þær koma ekki fram hérna. Mér þætti mjög til bóta ef forseti leitaði eftir því fyrir næstu áætlun, sem lögð verður fram eigi síðar en 1. apríl 2016, að ráðherrunum verði gefinn tími til að ræða hér við þingmenn um rammann fyrir þeirra málaflokk. Ég held að það yrði nær því sem lagt var upp með þegar ákveðið var að svona áætlun ætti að leggja fram og að fjárlagagerðin mundi batna og þingmenn gera sér líka betur grein fyrir hvað fælist í raun og veru í áætlun sem þessari.