144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[21:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli: Finnst mér það koma til greina? Ég hjó einnig eftir því í ræðu hv. þingmanns að hugsanlega væri landlæknisembættið betur til þess fallið, en þó er starfsfólk Þjóðskrár vant því að fara með mjög viðkvæmar upplýsingar og býr yfir mjög mikilli þekkingu, að mér skilst, á sviði upplýsingatækni og þess að verja upplýsingar. Ég þori hreinlega ekki að fara með það hér og nú en mér finnst þetta vera eitt af því sem er mikilvægt að kanna til hlítar.

Reyndar finnst mér almennt séð sífellt verða meiri og meiri ástæða til þess að doka við þegar spurningar vakna um það hvar eigi að geyma upplýsingar, hverjir hafi aðgang að þeim o.s.frv. vegna þess, eins og ég segi svo oft, að upplýsingatæknin gerir allt auðveldara, þar á meðal mannréttindabrot. Lekar koma reglulega fyrir einfaldlega vegna þess að það er mikið af hökkurum í heiminum og fólk gerir mistök — stundum fer það ekki alveg jafn varlega með upplýsingar eða tölvubúnað og það ætti að gera eða mundi gera ef það hefði viðeigandi þekkingu. Við verðum einhvern veginn í þessum nýja heimi með þessari gasalegu upplýsingatækni að gera ráð fyrir því að hlutirnir fari úrskeiðis af og til. Það setur skyldu okkar í nýtt samhengi, þá skyldu að fara varlega með upplýsingar og vita vel hvers vegna við hýsum hvað hvar og hver skaðinn er af því ef eitthvað fer úrskeiðis. Það er gríðarlega mikilvægt. Með hliðsjón af eðli þessara upplýsinga sem ég geri ráð fyrir að séu yfirleitt ef ekki alltaf í einhverjum skilningi læknisfræðilegar þá þykir mér líklegt að landlæknisembættið henti betur til að geyma þær en það er líka spurning um ferla. Það er spurning um í hvaða ferlum þarf að hafa aðgang að þessum upplýsingum og þá hvaða fyrirliggjandi samskipti séu þegar til staðar og allt það. Þetta er eitt af mörgum atriðum sem mér finnst mjög mikilvægt að nefndin taki sinn tíma í að skoða til hlítar.