144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

vopnalög.

673. mál
[21:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998. Í frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um innleiðingu tveggja Evróputilskipana, annars vegar tilskipun 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur og hins vegar tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB frá 4. apríl 2008 um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.

Auk þess er mælt fyrir um breytingar á uppsetningu ákvæða er varða skotelda. Um er að ræða lagatæknilegar breytingar en engar efnisbreytingar eru lagðar til umfram framangreindar tilskipanir. Framangreindar tilskipanir hafa verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/2010 frá 10. nóvember 2010, um breytingu á II. viðauka EES-samningsins frá 2. maí 1992. Þess ber að geta að EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu síðastliðið haust að Ísland hefði brugðist skyldum sínum við að innleiða framangreindar tilskipanir í íslenskan rétt og er því brýnt að tilskipanirnar verði innleiddar hið fyrsta.

Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur eru settir öryggisstaðlar sem skoteldar verða að uppfylla til að verða settir á markað. Ákvæði tilskipunarinnar gilda um hefðbundna skotelda sem og sviðsskotelda. Í tilskipuninni er kveðið á um að Evrópusambandinu sé heimilt að gefa út sameiginlega staðla, grunnkröfur um öryggi sem skoteldar sem settir eru á markað í ríkjunum verða að upfylla. Jafnframt er kveðið á um að allir skoteldar verði að vera CE-samræmismerktir til staðfestingar á að varan uppfylli grunnkröfur þeirra Evróputilskipana sem um hana gilda og að við mat á samræmi hafi verið beitt þeim aðgerðum sem tilteknar eru í viðkomandi tilskipunum.

Íslendingar hafa undirgengist sambærilegar kröfur varðandi ýmsar aðrar vörur, t.d. leikföng og fleiri þess háttar vörur. Markmiðið með tilskipuninni er að koma á frjálsum flutningum á flugeldavörum á innri markaðnum og jafnframt tryggja öfluga heilsuvernd manna og almannaöryggi og vernd og öryggi neytenda sem og að taka tillit til umhverfisverndar. Þannig eiga reglurnar að tryggja að neytandinn geti verið þess fullviss að flugeldar sem keyptir eru hér á landi uppfylli alla sömu öryggisstaðla og séu framleiddir samkvæmt sömu stöðlum óháð seljanda vörunnar. Því er lagt til með frumvarpi þessu að skoteldar skuli vera CE-samræmismerktir.

Rétt er að geta þess samkvæmt upplýsingum sem birtust í fjölmiðlum fyrr í vetur að allir skoteldar sem innfluttir voru af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu fyrir síðustu áramót eru CE-samræmismerktir. Þess ber að geta að Slysavarnafélagið Landsbjörg er með 80–85% markaðshlutdeild. Þá mælir tilskipunin á um hlutlæga ábyrgð innflytjenda í vissum tilvikum. Fram kemur að framleiðendur skuli tryggja að flugeldar samrýmist tilteknum öryggiskröfum sem mælt er fyrir í viðauka I við tilskipunina en ef framleiðandi hefur ekki aðsetur innan Evrópusambandsins skuli innflytjendur skoteldanna tryggja að framleiðandi þeirra hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt tilskipuninni eða taka á sig þær skyldur sem þar er kveðið á um. Rétt þykir að um ábyrgð sem þessa sé fjallað í lögum. Loks kveður tilskipunin á um markaðseftirlit, merkingar skotelda o.fl.

Lagt er til með frumvarpi þessu að markaðseftirlit verði falið Neytendastofu, enda vinnur sú stofnun nú þegar að flestum þeim markaðseftirlitsverkefnum sem kveðið er á um í tilskipunum sem í gildi eru í Evrópusambandinu og hafa verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Þá er nauðsynlegt að leggja til nýja skilgreiningu á skoteldum sem og leggja til að refsiákvæði laganna verði lagfærð í samræmi við kröfur tilskipunarinnar.

Virðulegi forseti. Með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB frá 4. apríl 2008 um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota er komið á fót samræmdu kerfi að því er varðar rekjanleika sprengiefna til almennra nota. Mikilvægt er sprengiefni séu auðkennanleg ef halda á nákvæmar og fullnægjandi skrár yfir sprengiefni á öllum stigum aðfangakeðjunnar. Því er hér lagt til að sá sem framleiðir, flytur inn eða verslar með sprengiefni skuli sjá til þess að sprengiefni, þar með talið smæstu einingar þess, sé sérstaklega auðkennt með einkvæðum auðkennum og að upplýsingar um sprengiefnið séu skráðar samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð. Þannig þarf að vera hægt að auðkenna og rekja sprengiefni frá framleiðslustað og fyrstu setningu á markað til endanlegs notanda og endanlegrar notkunar með það í huga að hindra misnotkun og þjófnað og að aðstoða lögregluyfirvöld við að rekja uppruna týndra og stolinna sprengiefna. Ljóst er að þetta getur ekki átt við um allar tegundir sprengiefnis, svo sem sprengiefni sem er óinnpakkað eða í dælubíl til beinnar losunar í sprengjuholuna.

Ekki þykir ástæða til að fara yfir einstakar greinar frumvarpsins er varða innleiðingu tilskipananna og ákvæða sem eru aðeins lagatæknilegs eðlis og varða flutning ákvæða yfir í sérstakan kafla. Það skal þó áréttað að hér eru ekki gerðar meiri kröfur en tilskipanirnar kveða á um.

Virðulegi forseti. Ég vona að mér verði ekki frekar fótaskortur á tungunni, en ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.