145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst það mjög súrrealískt að standa hérna og sjá dagskrá á borðinu og að menn séu bara að fara að ganga til dagskrár eins og ekkert hafi í skorist. Á sama tíma erum við í þeirri stöðu að alger trúnaðarbrestur hefur orðið millum kjósenda og þeirra sem hér sitja og ekki síst ríkisstjórnarinnar vegna Panama-skjalanna. Ég tel að við þurfum að láta það verða forgangsverkefni að setjast niður og reyna að átta okkur á því hverju við ætlum að svara fólkinu hér úti sem kallar eftir kosningum. Það þýðir ekki að segja eitt í síðustu viku og hætta svo við í þessari viku. Við breiðum ekki sængina yfir haus og bíðum þetta af okkur.

Ég vil því ítreka spurningu mína til forseta, hvort ekki komi til greina að gera hlé á fundi og reyna að fá botn í það hvenær á að ganga til kosninga þannig að við getum einhent okkur í að fara að ljúka þeim málum sem við þurfum að ljúka fyrir þann tíma.