150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þær framkvæmdir sem er heimilað að bjóða út sem samvinnuverkefni eins og kemur fram í frumvarpinu eru þessar sem fram komu, hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá o.s.frv. Það sem skiptir máli þarna er það hvort fólkið sem þarf mest að nota þessar samgöngur sé hlynnt því að greiða veggjöld, hlynnt því að fara í það fyrirkomulag í staðinn fyrir að fundin sé önnur leið til þess að fjármagna vegaframkvæmdir á Íslandi. Til dæmis eins og væri hægt í staðinn fyrir krónutölur á eldsneyti, sem er gjald á greiddan kílómetra að vissu leyti, að hafa það gjald á kílómetra. Það er hægt að nota kílómetramæla til að reikna það hvað fólk skal greiða í gjöld og það er bara farið yfir það á ársgrundvelli. Það væri ein leið. Það eru aðrar leiðir til að fjármagna þetta.

Ég held að langflestir landsmenn vilji ekki veggjöld nema þeir séu neyddir til þess af því að annars yrði ekki farið í þær framkvæmdir. En samt sem áður er það lykilatriði við þessar framkvæmdir. Ég spyr ráðherra: Hefur hann athugað það? Eru þeir landsmenn sem mest þurfa að nota framkvæmdirnar, samgönguúrbæturnar, hlynntir því að greiða veggjöld fyrir það? Það vegur líka þungt hvort almenningur í heild sinni sé hlynntur því eða ekki. Það væri áhugavert ef einhver gerði skoðanakönnun um veggjöld, alla vega af því sem ég hef heyrt er almenningur almennt á móti því.

Einnig skiptir máli að aðrar vegaframkvæmdir frestast kannski vegna þessa. Ríkið þarf á einhvern hátt að koma með fjármagn þarna inn af því hér stendur að einkaaðili annist fjármögnun í heild eða að hluta eða taki með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis. Hvað er þetta í heild eða að hluta? Við vitum að Vaðlaheiðargöngin fóru á þann hátt að ríkið var að ábyrgjast ýmsa hluti. Svo fór þetta allt fram úr öllu og það ríkisbatterí sem hefur eftirlit með svona hlutum sagði: Þetta er bara orðið samkvæmt skilgreiningu ríkisframkvæmd eftir allt klúðrið og aðkomu ríkisins með sífellt meiri fjáraustri. (Forseti hringir.) Þetta þarf líka að passa upp á. Ef ráðherra byrjar á að svara þessu.