150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði bara að koma hingað upp og ítreka það sem ég er búinn að segja nokkrum sinnum, að í þessari hugmyndafræði er ábatinn fyrir notandann. Það er ódýrara að fara nýju leiðina. Þú byrjar ekki að borga fyrr en framkvæmdin er komin, hún styttir tíma þinn, hún er öruggari, þú ert með nýrri framkvæmd og öruggari. Hún sparar útblástur, hún er loftslagsvæn. Hún er jákvæð á allan hátt og hún er ódýrari leið fyrir notandann. Hvernig samningarnir eru síðan gerðir til að tryggja að einhverjir séu tilbúnir að fara í framkvæmdina er auðvitað verkefni sem Vegagerðin er að fá með þessu. Er þar verið að seilast í vasa skattgreiðenda eða ríkisins? Nei, það er það ekki. Það er akkúrat það sem þetta þarf að ganga út á. Samningarnir og sá lærdómur sem við höfum dregið af öðrum löndum og Vegagerðin og ráðuneytið hafa verið að kynna sér sl. tvö ár hafa gengið mjög vel. Ég get bara spurt hv. þingmenn af því að Samfylkingin í Reykjavík, borgarstjórn, hefur talað fyrir (Forseti hringir.) gjaldtöku hér: Eru menn þar að búast við því að seilst verði í vasa skattgreiðenda? (Forseti hringir.) Ég held ekki, ég held að menn séu að reyna að setja upp kerfi sem virkar til að flýta framkvæmdum, (Forseti hringir.) búa til störf og búa til arðsama fjárfestingu, m.a. fyrir lífeyrissjóði landsins.