150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[16:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta fyrir andsvarið en ef við tökum þetta og reiknum þetta út eins og var sagt, að 200–300 bílar færu um á ári, þá erum við að tala um, miðað við þennan kostnað, að heildarkostnaður á þessari framkvæmd sé alveg gífurlegur á hvern bíl.

En ég geri mér líka grein fyrir því að Axarvegurinn ætti að vera þarna inni með göngunum niður til Seyðisfjarðar út af ferjunni. Þetta tvennt ætti að vera tengt saman. En það er ekki hérna inni, það er eiginlega stórfurðulegt að þarna er búið að sameina öll þessi sveitarfélög og aðalkrafa þeirra er göngin, að þau fari í gang. Þau gera kröfu um að þessi göng komi vegna þess að þarna er, á vorin og haustin þegar fólk er að fara í ferjuna, gífurleg hætta, stopp vegna snjókomu og um mjög hættulega vegi að fara. Þessi göng ættu frekar að vera þarna inni en Axarvegurinn. En eins og ég segi, þetta er sú framkvæmd sem ég legg áherslu á að verði gerð en ég held að hún eigi alls ekki að vera inni í þessum pakka. Ég hefði frekar bara skipt þessum Axarvegi út og sett göngin og ég er viss um að Austfirðingar væru sáttir við það að göngin væru þarna inni og ríkið tæki Axarveg og þá gætu allir verið ánægðir.