150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni andsvarið en ég var nú alls ekki að hugsa til hv. þm. og ræðu hans í gær þegar ég — (ATG: Hvað segirðu?) Já, það var ekki meiningin. Satt best að segja rifjaðist það upp fyrir mér meðan hv. þm. kom í andsvar að þau orð hefðu fallið í gær. En ástæðan fyrir því að ég nefni þetta Covid-samhengi er í rauninni, ef svo má segja, væntingastjórnun. Að segja: Heyrðu, þetta eru ekki mál sem eru öll að ryðjast af stað um leið og búið er að klára þetta frumvarp. Það er verulegur undirbúningur eftir, hvað mörg þeirra varðar, þannig að í því samhengi gagnvart fjárfestingum og atvinnusköpun í núinu þá gæti það ekki nema að hluta til fallið undir þá regnhlíf.

Varðandi hlutfall skatttekna, af því ég skildi hv. þm. þannig að hann ætlaði að koma inn á það í seinna andsvari, þá er kannski best að gefa smá — nú jæja, ég ætla samt að gefa forgjöf hvað þá umræðu varðar úr því að ég hef tíma. Ég held að ef við værum til að mynda að horfa á framkvæmdir sem væru unnar á grundvelli skuldsettra framkvæmda, hvort sem það væri dótturfyrirtæki Vegagerðarinnar eða hvernig sem það væri útfært, væri í núverandi vaxtaumhverfi hægt að komast mjög vel áfram með slíkri hliðaraðgerð við samgönguáætlun og tillaga okkar Miðflokksmanna gekk í byrjun árs út á það að farið yrði í 150 milljarða skuldsettan framkvæmdapakka en nota bene, hann var ekki allur áætlaður í samgöngumannvirki. En engu að síður eru slíkar tölur færar í því vaxtaumhverfi sem (Forseti hringir.) við erum að horfa á og vinna í í dag.