150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir andsvarið og vil byrja á að segja: Samgönguáætlun er væntanlega mikilvægasta framkvæmdaáætlunin sem þarf að koma í gegn hvað varðar uppbyggingu og framkvæmdastig í samfélaginu, við hv. þingmaður erum sammála hvað það varðar. Það er ekki valkostur í mínum huga að það mál verði ekki klárað núna og ég finn það líka í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að það eru allir þeirrar skoðunar að það mál, ef svo má segja, er það mikilvægasta í nefndinni, og mál eins og þetta. Síðan bíður maður auðvitað eftir því að fá kannski fyllri upplýsingar um með hvaða hætti framkvæmdapökkum sem hafa verið tilkynntir af hendi ríkisstjórnarinnar, þ.e. hvernig hlutfalli þeirra verður varið til vegaframkvæmda.

En aðeins að því að menn hafi val um aðra leið. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt komið að kjarna málsins, að valkosturinn leggst raunverulega af við nýframkvæmdina, það var eiginlega punkturinn sem ég var að reyna að koma á framfæri í ræðu minni áðan, rétt eins og þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð á sínum tíma þá lagðist vegurinn fyrir Hvalfjörð raunverulega af sem þjóðvegur 1, tenging sunnanverðs Vesturlands við höfuðborgarsvæðið. Sama mun auðvitað gerast með hluta þessara framkvæmda. Það er því ekki raunverulegur valkostur frá því að framkvæmdin á sér stað og áfram til framtíðar fyrir vegfarendur. Þess vegna hef ég haft efasemdir um að það sé ástæða til (Forseti hringir.) að tengja sig mjög ákveðið þeirri tilteknu forsendu.