151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem ég var um margt sammála og um sumt ósammála. Ég deili ekki þeirri skoðun hv. þingmanns að rétt sé að hafa þessa tímabindingu, þetta sólarlagsákvæði. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir þessa fjölmiðla að hafa fyrirsjáanleika í sínum rekstri eins og kostur er. Vissulega lifum við óvenjulega tíma um þessar mundir á Covid-tímum og vissulega er hér mjög óeðlilegt rekstrarumhverfi þar sem um er að ræða starfsemi alþjóðlegra risa, efnisveitna og samfélagsmiðla. Vonandi er það tímabundið en ég er alveg sannfærður um að það fylgja þá einhverjar aðrar áskoranir í kjölfarið. Ég er ekki sammála þeirri sýn sem mér virtist vera í máli hv. þingmanns, þ.e. að hann vilji tengja þetta við áform um að taka Ríkisútvarpið af fjölmiðlamarkaði sem ég tel að sé kannski flóknara mál.

Hv. þingmaður vék að breytingartillögum minni hlutans um 50 milljóna þak sem við viljum setja á. Það er kannski ekki fyrst og fremst hugmyndin. Vissulega er smátt fagurt en þetta er ekki bara spurning um lítið og stórt heldur tel ég að við séum þarna að vinna í anda laganna frá 2011 um fjölmiðla (Forseti hringir.) þar sem er lögð áhersla á fjölbreytni og lögð áhersla á að það sé hlutverk ríkisins að stuðla að fjölbreytni. Fyrst og fremst vakir það fyrir minni hlutanum að reyna að stuðla að því að styrkirnir fari á fleiri staði (Forseti hringir.) svo að fleiri blóm megi vaxa.