151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

endurnýjun vegarins yfir Kjöl með einkaframkvæmd.

696. mál
[22:31]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um endurnýjun vegarins yfir Kjöl með einkaframkvæmd. Ásamt þeim sem hér stendur eru eftirtaldir hv. þingmenn á málinu með mér: Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason.

Tillagan gengur út á að Alþingi álykti að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hefja undirbúning að endurnýjun vegarins yfir Kjöl og gera hann að vegi sem hægt er að halda opnum stóran hluta ársins með einkaframkvæmd. Ráðherra hlutist í þessu skyni til um að gerð verði forkönnun á umhverfisáhrifum ásamt samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum framkvæmdarinnar, m.a. á ferðaþjónustu, byggðaþróun og náttúruvernd.

Sambærileg mál voru flutt á 145., 148. og 149. löggjafarþingi en náðu ekki fram að ganga.

Tillagan lýtur að því að vegurinn yfir Kjöl verði endurnýjaður og lagður bundnu slitlagi í einkaframkvæmd þannig að unnt verði að halda honum opnum mestan hluta ársins svo að betur megi nýta hann til að mæta aukinni umferð á svæðinu með tilkomu fleiri ferðamanna. Framkvæmdin hefur ekki áhrif á forgangsröðun samgönguáætlunar.

Öryggis-, byggða- og umhverfissjónarmið renna styrkum stoðum undir tillöguna um að endurnýja Kjalveg. Þá hafa Samtök ferðaþjónustunnar bent á mikilvægi þess að vegasamgöngur milli landshluta verði bættar, ekki síst vegna stóraukins ferðamannastraums síðastliðinna ára en samtökin hafa gagnrýnt harðlega þá forgangsröðun að vegarkaflinn hafi ekki hlotið brautargengi í síðustu samgönguáætlun. Það verður einnig að teljast fullkannað að samgöngubætur hafa jákvæð áhrif á öryggi, nærsamfélag og efnahag.

Við undirbúning að endurnýjun vegarins er mikilvægt að allir fletir málsins verði vel greindir, þar með talið hvernig best væri að standa að fjármögnun verksins og hvort skynsamlegt væri að líta til fyrirkomulagsins við gerð Hvalfjarðarganga með aðkomu Spalar hf. sem fyrirmynd fyrir þetta verkefni.

Á undanförnum árum hefur talsvert verið fjallað um möguleika á því að stytta leiðir milli landshluta með bættum hálendisvegum, m.a. með það að markmiði að tengja betur saman fjölmennustu byggðir landsins. Töluverð rannsóknarvinna hefur verið unnin vegna nokkurra af þeim leiðum sem liggja um hálendið, svo sem um Sprengisand, Fjallabak og Kjöl, og því liggur fyrir mikið magn af gögnum hvað þær varðar. Þrátt fyrir það hafa fornir hálendisvegir verið í niðurníðslu undanfarin ár og flokkast frekar sem slóðar en vegir. Kjalvegur hefur frá landnámsöld verið mikilvæg samgönguæð milli norður- og suðurhluta landsins og þrátt fyrir mikla uppbyggingu á hringveginum síðustu áratugi er mikilvægi vegarins um Kjöl enn mikið. Veginum hefur þó ekki verið haldið við eins og nauðsynlegt hefði verið.

Hér er því lagt til að vegurinn yfir Kjöl verði endurnýjaður og lagður vegur sem hægt verði að halda opnum stóran hluta ársins ásamt því að verkefnið verði unnið sem einkaframkvæmd.

Á síðastliðnum tíu árum hefur vöxtur ferðaþjónustunnar verið mikill og erlendum ferðamönnum sem sækja Ísland heim fjölgað úr hálfri milljón í um 2 milljónir samkvæmt farþegaspá Isavia og tölum frá Ferðamálastofu. Flutningsmenn hafa trú á því að þrátt fyrir áföll sem tengjast heimsfaraldri Covid-19 rísi íslensk ferðaþjónusta hratt upp á nýjan leik. Mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir heimsfaraldurinn var orðið mjög mikið. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu námu um 42% af heildargjaldeyristekjum Íslendinga árið 2017.

Ljóst er að sívaxandi fjöldi ferðamanna reynir á innviði samfélagsins og því er mikilvægt að huga að fjárfestingum á því sviði. Ferðaþjónustan er orðin lykilgrein í atvinnumálum landsmanna. Hefur ferðamönnum yfir vetrartímann jafnframt fjölgað mikið og nú er svo komið að ferðamannatíminn nær yfir allt árið. Þannig hefur tekist að jafna árstíðabundnar sveiflur en enn er mikið verk óunnið. Kannanir hafa sýnt að stór hluti ferðamanna ferðast aðeins um Suðurland og suðvesturhorn landsins þrátt fyrir að náttúruperlur og vænlega ferðamannastaði sé að finna hringinn í kringum landið. Með heilsársvegi yfir Kjöl er mögulegt að stytta til muna leiðina landshorna á milli og auðvelda þannig ferðir til Norðurlands og yfir hálendið og opna fyrir möguleika á þróun nýrra ferðamannaleiða. Þá veitir það fleirum tækifæri til að upplifa hálendið og náttúru þess og víðerni sem eru einstök á evrópskan mælikvarða og ljóst er að hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem koma til landsins. Þá opnast einnig möguleikar á styttri hringferðum.

Fjölgun ferðamanna og fjölgun bílaleigubíla á undanförnum árum ýtir undir mikilvægi þess að ráðast í uppbyggingu Kjalvegar. Bílaleigubílarnir gegna mikilvægu hlutverki í dreifingu ferðamanna um landið. Flutningsmenn þessarar tillögu telja að með því að bæta samgöngutengingar á milli Suður- og Norðurlands um Kjöl megi reikna með meiri nýtingu margs konar innviða sem fjárfest hefur verið í og að svæðin báðum megin styrkist.

Fyrir heimsfaraldurinn fór fjöldi leigðra bílaleigubíla yfir 25 þúsund og meiri hluti erlendra ferðamanna, eða um 60%, leigði bílaleigubíl og ferðaðist þannig um landið. Akstur erlendra ferðamanna á bílaleigubílum hér á landi er talinn vera um 20% af eknum kílómetrum og má reikna með að hlutfallið fari vaxandi. Reikna má með að stærsti hluti aksturs um nýjan Kjalveg myndi tengjast ferðalögum erlendra ferðamanna, annaðhvort með bílaleigubílum eða hópferðabílum.

Það er kannski rétt að geta þess hér svona í samhengi hlutanna að 2018 leigðu 60% erlendra ferðamanna sér bílaleigubíla á Íslandi en þetta hlutfall árið 2011 var 37%. Það er mikil breyting. Þetta þýðir að 2011 voru kannski um 150.000–200.000 erlendir ferðamenn að keyra um landið í bílaleigubílum en voru 1,3 milljónir 2018, sjö árum seinna, þannig að fjöldinn hefur áttfaldast eða nífaldast á þeim tíma.

Síðan er komið að kafla um byggðastefnu. Betri vegir um hálendið ykju ekki einungis ferðaþjónustu á einstökum stöðum og styrktu þannig hverja byggð fyrir sig heldur gæfist með betri hálendisvegum tækifæri til að styrkja landsbyggðina í heild með aukinni samvinnu og samkeppni milli einstakra byggðarlaga. Hringvegurinn yrði þá ekki eina greiðfæra leiðin heldur opnuðust fleiri möguleikar með styttri hringleiðum sem gætu hentað fleirum, bæði einstaklingum og ferðaþjónustuaðilum og aðilum í öðrum atvinnurekstri. Og hér er sérstaklega talað um Norðvesturland í þessu samhengi. Norðvesturland hefur farið nokkuð halloka í atvinnu- og byggðamálum síðustu áratugi og þar hefur íbúum og störfum fækkað jafnt og þétt. Heilsársvegur yfir Kjöl myndi styrkja atvinnulíf í landshlutanum auk þess sem ferðaþjónusta getur skipt grundvallarmáli þegar kemur að því að viðhalda lágmarksþjónustu í litlum byggðarlögum þar sem íbúafjöldi stendur ekki undir henni einn og sér.

Síðan er hér stuttur kafli um aukið öryggi og umhverfismál. Nýr og bættur vegur yfir Kjöl myndi bæta umferðaröryggi á hálendinu og minnka líkur á slysum. Núverandi ástand Kjalvegar er óviðunandi og vegurinn hættulegur yfirferðar og veldur miklu sliti á þeim bifreiðum sem um hann aka. Þá má ætla að betri samgöngur um hálendið dragi úr álagi og viðhaldsþörf annars staðar í samgöngukerfinu. Lögregla og björgunarsveitir ættu greiðari leið upp á hálendi til að fylgjast með og vakta aukna umferð um það og heilsársvegur um Kjöl myndi nýtast sem neyðartenging milli Norðurlands og Suðurlands. Endurbætur á Kjalvegi myndu einnig styrkja náttúruvernd á hálendinu. Utanvegaakstur á hálendinu er viðvarandi vandamál sem ógnar náttúrunni víða og nauðsynlegt er að sporna við. Bent hefur verið á að lélegir vegir á hálendinu og margir óljósir slóðar kunni að ýta undir utanvegaakstur og því sé betra að hafa vel byggða vegi yfir hálendið svo að betur sé hægt að stýra umferðinni og halda henni á vegum og minnka þannig rask á náttúrunni. Mikilvægt er einnig að vegurinn falli vel að umhverfinu og sé ekki áberandi eða byggður hátt upp úr landslaginu sem hann liggur um.

Ljóst er að erfitt er að halda Kjalvegi opnum allt árið um kring og sérstaklega í núverandi ástandi en með betri vegi væri hægt að lengja það tímabil sem hægt er að aka upp á hálendið, sérstaklega fyrir þá sem ferðast á fólksbílum. Þá sjá flutningsmenn tillögunnar kost við það að tengja hálendi og láglendi saman á einum stað. Kosturinn felst í því að þegar óráðlegt er að ferðast um hálendi Íslands yfir harðasta tíma vetrar er auðvelt fyrir Vegagerðina, björgunarsveitir eða rekstraraðila vegarins að loka aðgangi og koma í veg fyrir að einstaklingar fari sér að voða.

Í tillögu þessari felst að endurgerð Kjalvegar verði einkaframkvæmd. Í stuttu máli felst í einkaframkvæmd að einkaaðili taki að sér fjármögnun, framkvæmd og rekstur verkefnisins í umboði hins opinbera. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin standi undir sér að öllu leyti með notendagjöldum með svipuðum hætti og staðið hefur verið að málum varðandi Hvalfjarðargöng, þar sem gjöldin hafa staðið undir fjármögnun, rekstri og viðhaldi ganganna. Aðkoma hins opinbera að slíkum verkefnum felst einkum í að heimila framkvæmdina og setja um hana reglur.

Hér á landi hefur ekki verið ráðist í margar einkaframkvæmdir í vegakerfinu en Hvalfjarðargöng eru skýrt dæmi um að slíkt getur heppnast vel. Veggjöld hafa að öllu leyti staðið undir fjármögnun, rekstri og viðhaldi ganganna og skilaði Spölur hf. ríkinu göngunum eins og um var samið. Reynslan af þessu viðamikla verkefni, sem Hvalfjarðargöng svo sannarlega eru, nýtist án efa í framtíðarverkefni þar sem farin verður svipuð leið.

Í lokin er kafli um undirbúningsvinnu og stuðning. Mikil rannsóknarvinna hefur verið unnin af hálfu einkaaðila og Vegagerðarinnar um áhrif bættra samgangna um hálendið. Snertir sú vinna samfélagsleg áhrif og áhrif á mismunandi byggðir en einnig hafa verið gerðar athuganir á kostnaði, umferðarspá og hagkvæmni. Þær rannsóknir nýtast við frekari athuganir og undirbúningsvinnu. Þá hefur Vegagerðin gert úttektir á veðurfari hálendisins með staðsetningu vega í huga. Útlit er fyrir að stuðningur við uppbyggingu hálendisvega sé mikill, sérstaklega sunnanlands og norðan, og hann aukist samhliða fjölgun ferðamanna til landsins. Liggur því beint við að horft verði til Kjalvegar í því samhengi.

Ég ætla síðan að hlaupa yfir nokkra punkta og benda á að um nýjan Kjalveg væri leiðin frá Gullfossi til Akureyrar 218 km, ef stysta leið væri farin, til Siglufjarðar 264 km, Húsavíkur 293, og frá Gullfossi á Mývatn væru 300 km. Þannig væri orðinn til nýr ferðamannaöxull í landinu á milli Gullfoss og Mývatns, 300 km. Til að skýra þetta enn betur; 218 km frá Gullfossi á Akureyri er nokkrum kílómetrum styttri leið heldur en frá Akureyri í Staðarskála í Hrútafirði.

Stóra myndin er sú að í dag koma um 70–80% — eða á undanförnum árum og fyrir heimsfaraldur og ég á ekki von á því að það breytist mikið — allra erlendra ferðamanna sem heimsækja landið við á Gullfossi og Geysi. Með heilsársvegi er mögulegt að stytta til muna leiðina landshorna á milli og auðvelda þannig ferðir til Norðurlands og yfir hálendið og opna fyrir möguleika á þróun nýrra ferðamannamöguleika og ýta enn frekar undir lengra ferðamannatímabil, eins og menn ræða í þessari tillögu. Við gætum verið að tala um að það yrði fært í sjö, átta mánuði, frá mars og fram að mánaðamótum október/nóvember eða fram í nóvember.

Það er ljóst að grunnneti hefur ekki verið haldið við. Hér er rétt að geta þess að Kjalvegur er í dag og í áætlunum ríkisins, framkvæmdarvaldsins og þingsins, samþykktum tillögum hér, einn fjögurra vega á hálendi Íslands sem teljast til grunnnetssamgangna. Það er með öllu óboðlegt að þessu grunnneti sé ekki haldið við og það byggt upp með sóma. Hinir fornu hálendisvegir eru í niðurníðslu og flokkaðir sem slóðar fremur en vegir.

Ég kom inn á hvernig þróunin hefur verið með bílaleigubílana, að erlendum ferðamönnum fjölgaði gríðarlega frá 2011–2018, það var gerð rannsókn á þessu, úr sirka 150.000– 200.000 manns upp í 1,3 milljónir, fjöldinn áttfaldaðist eða nífaldaðist á einungis sjö árum. Þetta er raunverulega dreifileiðin, með þessum bílaleigubílum, á erlendum ferðamönnum vítt og breitt um landið og með þeim gjaldeyristekjum og dreifingu og gistinóttum vítt og breitt um landið. Gullfoss–Skagafjörður eru 135 km í byggð þannig að það er örstutt þar yfir. En á síðustu 20 árum hefur umferðin um norðanverðan Kjalveg ekki aukist þótt umferð erlendra ferðamanna um landið hafi aukist gríðarlega.

Rétt í lokin vil ég benda á að næstu skref sem þyrfti að taka í þessu máli er að það myndi nást samstaða meðal sveitarfélaga, landshlutasamtaka, á Suðurlandi, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra og svo auðvitað skiptir hugur þingmanna miklu. Þessir aðilar þyrftu að ná saman um að vinna umhverfismat og hvað ætti að vera í því umhverfismati og hvað ætti að vinna með slíku mati. Það er klárlega næsta skref til að vinna áfram með mál eins og þetta.