151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

ný velferðarstefna fyrir aldraða.

720. mál
[23:14]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru mörg falleg orð á blaði. Ég velti aðeins fyrir mér hvað sé svona róttækt við þessa tillögu. Þetta skildi eftir margar spurningar. Af því að talað var um einhliða stofnanasýn þá erum við í dag með félagslega heimaþjónustu, þjónustu í þjónustumiðstöð fyrir aldraða, heimahjúkrun á vegum heilsugæslustöðva, dagvistun, endurhæfingarinnlögn, hvíldarinnlögn, búsetu í dvalarrýmum, búsetu í hjúkrunarrýmum. Ég er aðeins að velta fyrir mér hvert þingmaðurinn var að fara með þessum hugmyndum. Í dag erum við þegar að skoða málefni eldri borgara og við erum með starfshóp í gangi sem var skipaður 2019. Ég velti fyrir mér hvort eitthvað af þeirri vinnu sem þingmaðurinn fjallaði um taki mið af þeirri vinnu sem er í gangi. Ingibjörg Isaksen leiðir þann starfshóp sem er að vinna í málefnum eldri borgara, því að þetta er sannarlega eitt af stærri viðfangsefnum samfélagsins, öldrun íbúa veraldarinnar. Mig langar því að spyrja þingmanninn: Taka þessar hugmyndir eitthvert mið af því sem er í gangi í dag? Er þetta bara einangrað mál sem Samfylkingin er að vinna með, því að það er svolítið talað eins og hér hafi ekkert breyst í málefnum eldri borgara í heil 30 ár?