Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[16:40]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er auðvitað sammála henni. Það er degi of seint að setja barn á biðlista. Barn á að fá úrlausn sinna mála eins fljótt og kostur er og að láta barn bíða svo árum skipti á biðlista er bara ótækt, það bara gengur ekki upp, ekki í mínum huga, vegna þess að þetta eru mótunarár barna og ráða miklu um þá vegferð sem barninu er síðan ætluð í framhaldinu, hvort það fái hjálp með þau vandamál sem það er að glíma við. Eins og ég orðaði það áðan: Við höfum bara mismunandi þarfir. Sum okkar hafa átt auðvelt með að læra, önnur ekki og það getur kannski bara verið lesblinda sem hefur orsakað það að barn getur ekki lært. Við þurfum auðvitað að leggja áherslu á það að sinna þörfum barna, hverjar sem þær eru og það segir einfaldlega í barnasáttmálanum: Það sem er barninu fyrir bestu, punktur. Okkur ber bara að fara eftir því. Svo er það auðvitað bara spurningin um þá forgangsröðun sem við sem þingmenn og sveitarstjórnarmenn víðs vegar um landið búum til. Erum við að forgangsraða rétt þegar við erum að útdeila úr sameiginlegum sjóðum skattpeningum sem við erum að afla frá fólki í landinu? Erum við að ráðstafa þessu á réttan hátt? Erum við að setja nógu mikið í þá velferð sem við viljum gjarnan kenna okkur við? Erum við þetta velferðarsamfélag sem við á tyllidögum segjumst vera, standa flestum þjóðum framar í að sinna fólki og veita fólki þá þjónustu sem því ber? Nei, ég held að við gætum gert miklu betur og mér finnst alveg ótækt að börn skuli búa við fátækt.