Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[16:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann vísar gjarnan í mannréttindasáttmálann fyrir börnin okkar, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnanna okkar, og mig langar í beinu framhaldi að vísa í 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem ég hef ósjaldan gert úr þessum æðsta ræðustóli landsins, þar sem segir í 1. mgr.:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Í 3. mgr. er sagt:

„Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Ég velti fyrir mér, óneitanlega, hv. þingmaður: Hvernig ber okkur að skilja það hvernig gengið er um æðstu réttarheimild íslenskrar löggjafar, okkar flaggskip í allri löggjöf, sjálfa stjórnarskrána, þegar við sjáum það í raun og veru hér í Alþingi Íslendinga, hér í þessum sal, hvernig í rauninni er verið að mölbrjóta það sem stjórnarskráin er að boða löggjafanum að standa við þegar hann á að standa vörð um í rauninni fólkið í landinu, um hagsmuni þjóðarinnar? Ég get ekki fundið nokkra einustu nálgun á því hvernig er best að láta reyna á allt þetta nema náttúrlega stefna ríkinu eða gera eitthvað í þá átt til að láta reyna á það hvort þeim er heimilt að halda 10.000 börnum undir fátæktarmörkum. Annað sem mér finnst í rauninni vera alvarleikinn í stöðunni, með allri þessari bið og allri þessari örbirgð, er að raunverulega skuli vandinn vera að vaxa meðal barnanna okkar, hvort sem lýtur að fátækt eða erfiðleikum í t.d. námi.