Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[18:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp og ræðuna og fagna því mjög að við séum hér að ræða menntamálin. Ég tek undir með hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, við gerum það of sjaldan og mættum gera meira af því. Nú erum við vonandi komin á þann stað að það mun rigna inn góðum frumvörpum frá hæstv. ráðherra er lýtur að menntamálum.

Ég spurði hér áðan í andsvari um aðalmuninn á milli þessarar stofnunar sem hér um ræðir, Mennta- og skólaþjónustustofu, og svo Menntamálastofnunar sem við búum við í dag. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt er þarna verið að færa ákveðin hlutverk sem hafa verið hjá Menntamálastofnun yfir til ráðuneytisins, m.a. eftirlitshlutverkið. Alla vega er það þannig að þessi tilraun okkar með Menntamálastofnun hefur því miður bara ekki tekist nægilega vel og þá hlýtur að vera ástæða til að breyta. Ég hef fylgst með umræðunni, m.a. á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og skólaþingi þar, þar sem hefur verið ákall eftir því sem þetta frumvarp fjallar um, þ.e. þessari samræmdu þjónustu til handa sveitarfélögum og skólum um land allt. Mér finnst mjög skynsamlegt að slíkt sé á herðum ríkisins og hef sagt í ræðum að mér líði stundum eins og við höfum of mikið sleppt tökum á menntamálum við yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Ég tek því undir að það er mjög mikilvægt að þau verkefni sem tilgreind eru undir þessum lögum séu á miðlægu formi þannig að öll sveitarfélög og allir skólar hafi kost á þeirri þjónustu sem í því felst.

Mig langar samt að ítreka það sem ég kom aðeins inn á áðan í andsvari. Þegar við erum að tala um að við ættum að veita þjónustu sem er byggð á bestu þekkingu og alþjóðlegum viðmiðum þá er ofboðslega mikilvægt að það sé örugglega svo og að þær aðferðir sem Mennta- og skólaþjónustustofnun er að mæla með séu aðferðir sem byggja á vísindalegri þekkingu og hafi verið sannreyndar með einhverjum hætti. Það er gott og vel að gera prófanir og tilraunir með nýja hluti en það er ekki þannig að við getum gert það bara á heilu árgöngunum og öllum börnunum okkar. Það má alls ekki vera þannig að skólar hér á Íslandi séu einhvers konar tilraunastofnanir til að prófa nýjar og nýjar aðferðir heldur verða þær aðferðir sem beitt er við kennslu barna að byggja á vísindalegum grunni og vísindalegri þekkingu. Mig langar bara að ítreka mikilvægi þess.

Ég hef reyndar hallast að því eftir að hafa rætt við aðila bæði í Frakklandi og Bretlandi sem benda á þessi ráðgjafaráð þar sem aðilar eru fengnir til að veita slíkum stofnunum ráð, aðilar sem þekkja vel til vísindagreina — ég hreinlega velti því fyrir mér, þar sem við erum nú lítið land, hvort við þurfum jafnvel að horfa út fyrir landsteinana í þessum efnum og horfa til erlendra sérfræðinga, ekki síst til þess líka að það skapist einhvers konar sátt um hvað það sé sem við leggjum hér fyrir þegar kemur að kennsluaðferðum.

Mig langar að þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir sína ræðu og umfjöllun um námsgagnagerð og útgáfu og tek undir margt af því sem þar fram kemur og velti því fyrir mér hvernig við getum komið betur að þeim málum þegar við förum að takast á við verkefnið í allsherjar- og menntamálanefnd. Fyrst og síðast vil ég leggja áherslu á að við erum með frábær börn. Íslensk börn, krakkarnir okkar, eru að gera frábæra hluti. Ég held reyndar líka að við höfum frábæra kennara og fullt af frábærum skólum sem eru að gera rosalega góða hluti en því miður er það enn þá svo að þegar við setjum einhvers konar staðlaðar mælieiningar á þessi störf þá kemur það ekki nægilega vel út. Við erum samt það OECD-ríki sem er að setja hvað mesta fjármuni í grunnskólana. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur sem hér stöndum, fjárlagavaldið sjálft og þá sem sitja í sveitarstjórnum, að vera sannfærð um að þær aðferðir sem verið er að beita, þær bjargir og þau tæki og tól sem kennarar og skólastofnanir fá, séu á heimsmælikvarða og séu þess eðlis að þeim sé ætlað að ná sem bestum árangri og búa börnin okkar sem best undir framtíðina. Ég tek heils hugar undir það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan um að það sé ekki bara lesskilningur og lestrarkunnátta, stærðfræði og náttúrufræði. Þó að það sé rosalega mikilvægt þá þurfum við alltaf að hugsa til þess að börnin okkar munu mjög líklega fást við eitthvað í framtíðinni sem við þekkjum ekki í dag. Það er því alveg ofboðslega mikil krafa á menntastofnanir hvers konar menntun þær að veita. Ég er alveg sannfærð um að við erum að gera margt alveg ofboðslega gott í þeim efnum en það er sláandi að við erum ekki að ná nægjanlega góðum árangri í lesfimi og lesskilningi.

Hæstv. ráðherra var fjarstaddur þegar við vorum að ræða fjármálaáætlunina en var með ágætisstaðgengil, formann flokksins, í sinn stað. Ég var að fara yfir þessi viðmið sem við setjum okkur í fjármálaáætlun þar sem við erum t.d. með viðmið um lesfimina og staðan árið 2022 var þannig að til að mynda í 4. bekk var þessi lesfimimælikvarði 80,7% en þegar ég fór að skoða eldri fjármálaáætlun sé ég að árið 2021 var það 82,6%, þannig að við vorum að lækka á milli ára, á meðan viðmiðið okkar fyrir 2024 er 85%. Þegar við horfum á PISA-niðurstöðurnar — sem ég veit að eru umdeildar og alls konar skoðanir eru á en það er samt það sem OECD er að gera til að mæla árangur — verðum við að horfa á það með þeim gleraugum að við viljum auðvitað þarna, eins og í svo mörgu öðru, vera hátt skrifuð og sjá til þess að þeir fjármunir sem við verjum í menntun og í lestrarkennslu skili sér líka. Þegar verið er að mæla þennan árangur þá er það bara sláandi hvað við erum því miður að ná slökum árangri.

Ég minnist þess að hæstv. menntamálaráðherra fyrir mörgum árum, Illugi Gunnarsson, fór í lestrarátak vegna þess að þá vorum við að horfa á þetta. Ég veit ekki hvað mörg ár eru liðin, tíu ár eða eitthvað svoleiðis. Því miður höfum við ekki náð árangri. Ef eitthvað er þá förum við niður. Þetta er algjörlega sláandi. Þess vegna segi ég að verkefnið sé stórt, þess vegna fagna ég öllum breytingum, öllum tillögum og hugmyndum sem lúta að því að ná betri árangri. Ég efast ekki um að það að vera með svona fagstofnun sem hægt er að leita til geti skilað árangri en ég ítreka enn og aftur það sem ég sagði: Við verðum líka að vera sannfærð um að þær aðferðir sem við erum að beita í skólakerfinu séu sannprófaðar, sannreyndar og til þess gerðar að ná árangri.

Að því sögðu þá veit ég það líka að við setjum ekki bara mælistiku á skólakerfið okkar út frá lesfimi eða lestrarskilningi. Það er ekki mælikvarðinn. Auðvitað skiptir líka miklu máli til að mynda hvernig börnunum okkar líður í skólanum. Og talandi um farsældina þá er hún auðvitað alveg ofboðslega stór þáttur. Lengi vel voru þær niðurstöður okkar mjög jákvæðar. Því miður eru eitthvað af nýjustu mælingum þar ekki nógu góðar. Það er samfélagslegt verkefni, það er verkefni okkar hér inni, verkefni sveitarfélaganna en ekki síst bara fjölskyldnanna og fólksins í landinu, að huga að því hvað það er sem veldur því að börnum á Íslandi líður ekki nógu vel. Það er ekki hægt að kasta allri ábyrgðinni á skólana og segja að þeir eigi að sjá um þetta allt saman. Það kann að vera að hluti af vandamálinu sem við erum að glíma við sé að menntastofnanir eru orðnar svo miklu, miklu meira en bara menntastofnanir. Þeim er falið svo víðtækt og mikilvægt hlutverk. Það breytir því ekki að þær spila lykilhlutverk í samfélaginu okkar. Ekki síst út frá jöfnuði og jöfnum tækifærum eru þessar stofnanir, og þar af leiðandi starfið sem þar er inni, alveg ofboðslega mikilvægar fyrir framtíðina okkar.

Þar af leiðandi vísa ég í það að starf kennarans er alveg gríðarlega mikilvægt. Ef þessi stofnun verður með einhverjum hætti til þess að auðvelda og styrkja kennara í þeirra störfum þá er það gott og vel. Ég veit að hér er markmiðið það. Ég vona bara að við getum öll, þingheimur, sameinast um að einblína á þessi verkefni. Ég fagna því sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra og hann hefur sýnt það í þessu og í farsældarlögunum að viðhafa þessa þverfaglegu og þverpólitísku vinnu. Við verðum að ná utan um þessi mál. Ég veit að hér í þessum sal eru allir sammála um að hagur barna, velsæld barna, lestrarkunnátta barna og gæði íslensks skólastarfs skiptir okkur öll máli og við ættum að geta sameinast um að reyna að ná þeim árangri sem við höfum sett okkur. Enn og aftur segi ég að við þurfum greinilega að vera á vaktinni. Því miður höfum við ekki verið að ná þeim markmiðum sem við höfum sett fram og þeim viðmiðum sem við höfum verið að setja fram á síðustu árum í fjármálaáætlunum okkar.